Home Greinar Heimsmarkmiðin og Reykjanesbær

Heimsmarkmiðin og Reykjanesbær

0
Heimsmarkmiðin og Reykjanesbær

Gott er að sjá að það sé verið að horfa til framtíðar varðandi heimsmarkmið S.Þ. í Reykjanesbæ. Þar stendur upp úr mikil áhersla á börnin og vellíðan þeirra. Einkennisorð skýrslu sem er í kynningu hljóma vel: framsækni, virðing og eldmóður. Fjölmargir opinberir aðilar hafa tileinkað sér gildi sem þessi þar sem ‘framsækni og ‘virðing’ koma oft fyrir, en þá ásamt gildunum: ábyrgð, fagmennska, heiðarleiki, jákvæðni, umhyggja, velferð eða þjónusta í stað eldmóðs. Vonandi þýðir eldmóðurinn þó ekki kapp án forsjár.

Nú bankar umhverfisvá á dyr samfélags okkar í formi skítugrar stóriðju í jaðri íbúabyggðarinnar og bæjarbúa vantar ekki plagg með hvítþveginni framtíðarsýn þar sem ekki er tekið á væntanlegum afleiðingum stóriðju mengunarskrímslisins, sem vill hreiðra um sig í bænum. Skrímslið eru þeir fjárfestar sem ætla sér að reisa hér tvær kísilverksmiðjur sem menga bæinn okkar og munu gera hann að sérstaklega óvistvænu samfélagi.

Fremstur fer þar Arion banki sem á Stakksberg sem á kísilversbygginguna í Helguvík og er alveg sama um okkar Vistvænu Samfélags stefnu. Þeirra eina markmið er að koma kolabrennslunni í gang og síðan að finna nýjan utanaðkomandi kaupanda og fá með góðu eða illu eins mikla peninga og þeir geta fyrir góssið.

Við nánari skoðun sýnist manni vanta raunverulega framsækni í liðnum „vistvænt samfélag“ í framtíðarsýn bæjarstjórnar. Það er ekki í anda Heimsmarkmiðanna að stofna heilsu íbúa í hættu með loftmengun og gera Reykjanesbæ að einum helsta loftslagssóða landsins. En auðvitað þarf bæjarstjórnin að bæta því við að hér verði ekki samþykkt aðal- og deiliskipulag þar sem boðið verður upp á mengað umhverfi, hvorki loft né vatn.

Það á ekki að hræðast hótanir fjárfesta um lögsóknir, málaferli eða refsingar þó bæjarfélagið uppfæri stefnur sínar og hafni mengandi verksmiðjum í Helguvík. Þvert á móti á að nota hvert tækifæri sem gefst til að ítreka stefnu Reykjanesbæjar um vistvænt samfélag og þá staðreynd að bæjarfélagið skuldar fjárfestunum ekki neitt.

Fjárfestarnir hafa frá upphafi hagrætt sannleikanum í umhverfismati og hundsað deiliskipulag bæjarfélagsins, auk þess að vera með fagurgala um lítil áhrif væntanlegrar kolabrennslu og loftmengunar á bæjarbúa. Starfsemi kísilvera í Helguvík er samt gjörsamlega ósamrýmanleg við öll áform um Vistvænt Samfélag við mörk Reykjanesbæjar.

Framsækin framtíðarsýn og heimsmarkmið hljóta að setja heilsu íbúa og loftslagsmálin í forgang, bæði undir liðnum vellíðan íbúa og vistvænt samfélag þar sem öll áform um íþróttir og útisvæði hljóta að byggja á því að íbúar geti um ókomin ár andað að sér ómenguðu andrúmslofti og búi þannig í raunverulega vistvænu samfélag.

Albert Svan Sigurðsson,
umhverfislandfræðingur og formaður Pírata í Reykjanesbæ