Píratar XP

Álfheiður Eymarsdóttirhttps://piratar.is/alfheidureymarsdottir/
Stjórnmálafræðingur og varaþingmaður| f. 18. júní 1969

Samþjöppuð stórútgerð 1-0

Oddviti Pírata í Suðurkjördæmi skrifar um veiðigjöld

Fallin með 4,8

Þá er komin niðurstaða með veiðigjöld ársins í fyrra. Reiknisérfræðingar ríkisins segja að 4,782 milljarðar skulu það vera heillin. Leiguviðskipti með rúmlega fjórðung úthlutaðs þorskkvóta á síðasta fiskveiðiári námu 7,276 milljörðum (heimild frá Fiskistofu). Þetta segir okkur allt aðra sögu en SFS og sjávarútvegsráðherra býður okkur uppá. 

Markaðsverð

Á leigumarkaði með aflaheimildir þá hefur útgerðin sjálf ákveðið að markaðsverð þorskveiðiheimilda á síðasta fiskveiðiári séu 101.768 kr. tonnið. Ef við uppreiknum þetta markaðsverð upp í 100% aflaheimilda í þorski þá fáum við út 27,477 milljarða miðað við þau 270.000 tonn sem var úthlutað. Við skulum nota varúðarreglu og lækka þessa tölu, bæði lækkar verð við meira framboð og við erum sanngjörn. En ég held að það sé óhætt að segja að íslenskir útgerðarmenn mátu markaðsverð heildarveiðiheimilda í þorski á síðasta ári á 24 milljarða. AUGLÝSINGÍ  þorski eingöngu. Íslensk stjórnvöld meta það hins vegar svo, eftir miklar reiknikúnstnir, að sanngjarnt gjald fyrir fiskveiðiauðlindina í heild, ekki bara þorski, heldur öllum tegundum, sé tæpir 4,8 milljarðar. Þetta byggja þau á rannsóknum á bókhaldi og afkomu útgerðanna. Markaðsverðið er reyndar enn hærra því ofan á leiguverðið eru greidd veiðigjöldin. Sá sem leigði frá sér heimildirnar situr með hreinan hagnað fyrir að gera ekki neitt.

Allar veiðiheimildir á uppboð

En þessar tölur segja okkur meira. Það eru nú þegar virk uppboð á verulegum hluta veiðiheimilda. Píratar hafa lagt til uppboð á tímabundnum veiðiheimildum og margir kalla það hreint brjálæði. Í töflunni hér fyrir neðan sjáum við þróun leigumarkaðar með þorskveiðiheimildir síðustu 10 fiskveiðiár. Við sjáum svart á hvítu hið viðamikla leigu/uppboðskerfi á þorski sem þegar er til staðar, hefur verið frá 1991 og fer sístækkandi. Sjávarútvegurinn er ekki á hliðinni þrátt fyrir hið viðamikla uppboðskerfi á þorski sem þegar er til staðar.

Heimild: Fiskistofa

Kerfi ófyrirsjáanlegra afleiðinga

Þessar tölur og þessi saga sýnir okkur líka að við erum að úthluta þorskveiðiheimildum til aðila sem geta ekki, vilja ekki eða þurfa ekki að fiska hann. Það er geðveiki. Þetta er afleiðing þess að vera með lokað kvótakerfi. Þegar ákveðið var að skipta úr sóknarkerfi yfir í kvótakerfi árið 1983 þá miðaðist upphafleg úthlutun á þriggja ára veiðireynslu. Svo var bara lok, lok og læs. Ekkert hugsað um framtíðarkynslóðir. Nýir útgerðarmenn voru útilokaðir frá veiðum. Svo komu auðvitað í ljós fleiri annmarkar á þessu (ófyrirsjáanlegar afleiðingar), einhverjir vildu hætta, aðrir byrja og eina leiðin til að flytja kvóta á milli skipa í kerfinu var að úrelda skip sem voru með kvóta. Um árabil úreltu Íslendingar ágæt sjóskip og báta (þvílík sóun) allt þar til frjálsa framsalið kom til sögunnar 1991. En það kom fljótt í ljós að sá háttur hafði einnig í för með sér ófyrirsjáanlegar, óæskilegar afleiðingar. Kvóti hvarf úr byggðarlögum yfir nótt. Kvótinn var veðsettur eins og hver önnur fasteign og samþjöppunin hófst fyrir alvöru og er enn í fullum gangi. Það er engin greið inngönguleið í kerfið fyrir nýliða. Og þá er hætt við að kerfið staðni. Stórútgerðarmönnum sem eru vel grónir inn í kerfið finnst þetta fullkomlega eðlilegt, enda bestu útgerðarmenn í heimi.

Blessaður fyrirsjáanleikinn

SFS kallar þetta fyrirkomulag samfélagslega sjálfbært, hagkvæmt og fyrirsjáanlegt. Samfélögin sem hafa misst kvóta og ekkert fengið í staðinn sjá þetta alls ekki sem samfélagslega sjálfbært. Fyrirsjáanleiki er mikilvægur, en það er ekki hægt að ætlast til þess að hann sé alltaf fullkomlega til staðar. Það eina sem við vitum með vissu um framtíðina er að breytingar eru óhjákvæmilegar. Þegar kemur að hagkvæmnirökunum þá þurfum við að leggja lóð á vogarskálir. Hvort vegur þyngra, atvinnufrelsi eða hagkvæmni? Jafnræði eða hagkvæmni? Líf og dauði byggðarlaga eða hagkvæmni? Ef hagkvæmnin og fyrirsjáanleikinn vegur alltaf þyngst þá getum við gert út eitt risaríkisskip og skóflað öllu upp á 6 mánuðum. Það vill enginn. En það væri vissulega hagkvæmt.

Kerfisfræðingar -ekki viðskiptamógúlar

Það er ekki svo að íslenskir stórútgerðarmenn og konur séu svona vel að sér í viðskiptum. Þau búa við forréttindi, fengu upphaflega ótrúlega forgjöf, bæði við upphafsúthlutun og í framhaldsviðskiptum með kvóta í samvinnu við sinn viðskiptabanka. Aðstöðumunurinn er svo enn meiri þegar ekki þarf að greiða fyrir stærstan hluta aðfanga sem eru miðin, aflaheimildirnar. Það geta langflestir rekið fyrirtæki með miklum hagnaði þegar þeir búa við forréttindi, sérleyfi, forgjöf og óeðlilegan afslátt af aðföngum. Þeir eru í besta falli kerfisfræðingar sem spila á kvótakerfið, lóðrétta samþættingu, stunda bókhaldslistir til að greiða sem minnst veiðigjöld og virðast allsendis ófærir um að starfa í eðlilegu samkeppnisumhverfi.

Burt með þetta fúsk

Stjórnvöld eru löngu fallin á prófinu. 4,8 milljarðar eru smápeningar miðað við markaðsvirði, blaut tuska í andlit skattgreiðenda. Ég legg til að ráðherra og reiknisérfræðingarnir verði látnir fjúka. Auðlindin er í okkar eigu. Þetta er ekkert annað en eignaupptaka ogarðrán!

Upprunaleg birtingKjarninn

Greinar eftir sama höfund

Skattarnir sem þú sérð ekki

Við Píratar erum stundum gagnrýnd fyrir það að tala mikið um aðgerðir...

Ólöglegar skerðingar?

Ég fékk mjög áhugaverða ábendingu um Tryggingastofnun (TR) í gær. Ég ætla...

Dýr eru dýrmæt í borgarsamfélaginu

Við í Reykjavíkurborg höfum ákveðið að sameina alla þjónustu við dýr í...

Skiljum fortíðina og sköpum framtíðina

Opnunarræða á aðalfundi Pírata, 21. ágúst.Síðustu 18 mánuðir hafa einkennst af umróti....

Píratar afhjúpuðu hláleg vinnubrögð Alþingis

Í gegnum tíðina hafi margir haft orð á því að starfshættir Alþingis...

Spilling er pólítísk ákvörðun

Píratar berj­ast gegn spill­ingu vegna þess að þannig sköpum við betra og...

Rasismi gegn Íslendingum

Síðustu vikur og mánuði hef ég reynt að vera sýnileg í framboði...

On­lyFans, klám og ó­skyn­sam­legar refsingar

Umræðan um klám er mikilvæg og henni er hvergi nærri lokið. Það...
X
X
X