Píratar XP

Skiljum fortíðina og sköpum framtíðina

Opnunarræða á aðalfundi Pírata, 21. ágúst.

Síðustu 18 mánuðir hafa einkennst af umróti. Daglegu lífi hefur verið snúið á hvolf, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim. Samfélög hafa þurft að færa gríðarlegar fórnir, ekki aðeins í mannslífum talið heldur hefur fólk verið tilbúið að gefa eftir frelsi sitt og margvísleg réttindi í þágu heildarhagsmuna – sem faraldurinn virðist ætla að gera okkur erfitt að endurheimta.

En umrótið á undanförnum mánuðum hefur einnig haft aðrar afleiðingar. Fólk um víða veröld er farið að hugsa hlutina upp á nýtt. Augu þess hafa opnast fyrir brotalömunum í núverandi kerfum, það er farið að sjá hvernig kerfin virka og fyrir hverja þau virka og fyrir hverja þau virka ekki. Á sama tíma hefur okkur verið kippt inn í framtíðina á ógnarhraða, atvinnuhættir hafa breyst til frambúðar og þróunin á aðeins eftir að verða hraðari með aukinni sjálfvirkni- og alþjóðavæðingu. Samhliða þessu öllu fáum við daglegar áminningar um framkomu okkar við jörðina; Meiri öfgar í veðurfari, hækkandi sjávarstaða, súrnun sjávar, skógareldar, aukin skriðuhætta og sterkari stormar. Allt eru þetta afleiðingar þeirrar kerfisvillu sem forgangsraðar ósjálfbærum vexti og gróðasjónarmiðum fram yfir hagsmuni náttúrunnar og komandi kynslóða og nú dugar ekki að stinga hausnum í sandinn og vona að allt reddist.

Framtíðin er hér með öllum sínum úrlausnarefnum og nú er tími breytinga. Gamlar lausnir duga ekki við nýjum vandamálum. Næstu fjögur ár munu skipta sköpum fyrir framtíðina og framtíðin hefur ekki efni á sömu gömlu stjórnmálunum, sömu gömlu aðferðunum og sömu gömlu svörunum.

Og þess vegna erum við hér. Þess vegna bjóðum við Píratar okkur fram. Nýir tímar krefjast nýrra svara og við bjóðum upp á þau svör. Píratar skilja fortíðina og ætla að skapa framtíðina.

Framsýn og framkvæmanleg
Undanfarna mánuði höfum við lagt á okkur ómælda vinnu við að teikna upp framtíðarsýn Pírata fyrir kosningarnar í haust. Við héldum á annað hundrað fundi og skrifuðum þúsundir blaðsíðna af stefnudrögum og greinargerðum sem við skárum síðan niður og fínstilltum í drasl. Afraksturinn er kosningastefnuskrá sem við getum verið gríðarlega stolt af. Hún er í heilum 24 köflum og teiknar upp skýra mynd af því samfélagi sem Píratar berjast fyrir. Velsældarsamfélagi sem hvílir á nýrri stjórnarskrá, hagkerfi framtíðarinnar, sanngjörnum leikreglum og virðingu við náttúru og fólk.

Stefnan er róttæk – en líka raunsæ. Hún er skynsamleg og sköruleg, framsýn og framkvæmanleg.

Og við Píratar höfum sýnt það á síðustu árum að við erum flokkur framkvæmda og höfum náð árangri langt umfram það sem niðurstöður kosninga gætu gefið til kynna, hvort sem það er í sveitarstjórnum eða á þingi.

Áhrif langt umfram stærð
Þannig hafa Píröturnar í borginni, þrátt fyrir að telja aðeins tvo borgarfulltrúa, haft gríðarleg áhrif hvort sem það er í samgöngu-, lýðræðis-, mannréttinda- eða tæknimálum. Reykjavíkurborg er farin að skipa sér sess meðal framsækinna höfuðborga heimsins, eins og 270 milljóna króna styrkur frá Bloomberg sýndi á dögunum, og ég þori að fullyrða það að Reykjavík væri ekki jafn framsýn og róttæk ef ekki væri fyrir Pírata í borginni. Borgarstjórnar-Píratar hafa sýnt að við hugsum í framtíð, því við vitum að eina leiðin til að segja til um framtíðina er að skapa hana.

Og núna erum við á leið inn í alþingiskosningar og ég held að það sé óhætt að segja að það verði auðvelt fyrir Pírata að leggja verk sín í dóm þjóðarinnar. Þrátt fyrir að við höfum verið í stjórnarandstöðu á kjörtímabilinu þá er það sama sagan og í borginni, Píratar hafa alltaf miklu meiri áhrif en hausatalning gefur til kynna – og haldið ykkur fast því nú hefst upptalning.

Sjálfbær iðnaðarstefna, afnám transskattsins, afnám bleika skattsins, ástandsskýrslur fasteigna, víðtækar aðgerðir gegn raka- og mygluskemmdum, stórefling tæknilegra innviða Stjórnarráðsins, aukið gagnsæi í fyrirtækjaskrá og ársreikningaskrá, sjálfstætt eftirlit með lögreglu, framtíðarnefnd, rannsókn á embættisfærslum Kristjáns Þórs í kjölfar Samherjaskjalanna, við upplýstum um óhóflega dagpeninga- og ferðagreiðslur ráðherra, við upplýstum um sjálftöku þingmanna í tengslum við aksturskostnað, við stóðum fyrir uppbyggingu FabLab smiðja um allt land, hampur út um allt, CBD og fleira og fleira og fleira.

Pírataáhrif á aðra flokka
En svo eru það hin ómælanlegu áhrif sem Píratar hafa haft á íslensk stjórnmál, sem eru gríðarleg. Þau gildi og baráttumál sem við höfum sett á oddinn hafa seytlað inn í stefnur annarra flokka, þegar þeir átta sig loksins á mikilvægi Píratagildanna um gagnsæi, lýðræði, upplýstar ákvarðanir og borgararéttindi.

Við höfum þannig gjörbreytt umræðunni í mörgum málaflokkum, eins og þegar kemur að skaðaminnkun og afglæpavæðingu neysluskammta sem við komum rækilega á dagskrá, skilyrðislausri grunnframfærslu, nýsköpun og rannsóknum, upplýsinga- og tjáningarfrelsi, vernd uppljóstrara og rannsóknarblaðamennsku, höfundarréttarmál og nýjan veruleika samhliða netvæðingu, gagnsæi í ríkisrekstri og lýðræði í öllum sínum myndum. Við höfum verið helstu bandamenn nýju stjórnarskrárinnar á Alþingi og barist svo ötullega fyrir strandveiðum að aðferðum okkar hefur verið líkt við tundurskeyti af Sjálfstæðismönnum.

Aðhald er efnahagsmál
Píratar hafa líka verið í fremstu röð þegar þurft hefur að veita framkvæmdavaldinu öflugt og mikilvægt aðhald, sem er eitt mikilvægasta hlutverk stjórnarandstöðu. Horfum bara til aksturspeningamálsins, þar sem við spöruðum skattgreiðendum tugi milljóna og sýndum fram á gríðarlega sjálftöku þingmanna. Við vorum fremst í flokki í Landsréttarmálinu og Samherjamálinu. Við erum óhrædd við að gagnrýna af krafti hvers kyns spillingu og óvandaða stjórnsýslu, ekki vegna þess að það er auðvelt eða okkur þykir gaman að rífast við ráðherra– heldur vegna þess það er þjóðhagslega mikilvægt.

 Í fámennu samfélagi eins og Íslandi er mikil hætta á frændhygli og hagsmunaárekstrum sem kostar samfélagið háar fjárhæðir á hverju ári. Fjárhæðir sem mætti nota í byggja hér upp velsældarsamfélag framtíðarinnar. Baráttan gegn spillingu er nefnilega ekki bara sanngirnismál heldur jafnframt gegnheilt efnahagsmál. Ef við viljum stjórnsýslu og hagkerfi sem virkar fyrir okkur öll, ef við viljum að valdhafar starfi af heilindum í þágu almennings og ef við viljum segja skilið við samsull stjórnmála og hagsmunaafla þá tökum við á spillingu.

Þess vegna megum við vera stolt af nýsamþykktri stefnu okkar um spillingarvarnir og þess vegna getum við aldrei farið í stjórnarsamstarf með flokkum sem taka þátt í samsullinu.

Skiljum og fögnum framtíðinni
Núna er tækifærið. Við erum með öfluga stefnu og framtíðarsýn, við erum með öfluga frambjóðendur, við erum með magnaða grasrót og við erum með frábært starfsfólk. Við höfum sýnt það á þessu kjörtímabili að við erum ekki bara einhver fúll-á-móti einsmálsflokkur heldur framsækin hreyfing fólks sem nær árangri. 

Framundan eru stórar áskoranir en í stórum áskorunum eru einnig stór tækifæri. Til þess að nýta þessi tækifæri þarf stjórnmálaöfl sem skilja framtíðina og fagna framtíðinni. Í komandi kosningabaráttu getum við sýnt svo ekki verður um villst að við erum það afl í íslenskum stjórnmálum.

Við skiljum að loftslagskrísan og vaxandi ójöfnuður kalla á róttækar samfélagsbreytingar. Við skiljum að framtíðin getur ekki snúist um auðsöfnun og síaukna neyslu. Hún þarf að snúast um tilgang og réttláta og sjálfbæra velmegun. Við skiljum mikilvægi lýðræðis og trausts almennings á stjórnmálum. Þess vegna ætlum við að efna loforð um nýja stjórnarskrá, fjárfesta í fólki, ýta undir nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins, auka fjölbreytni í atvinnulífinu, bjóða upp á framtíðarmiðað og spennandi nám, ráðast í róttækar breytingar í sjávarútvegi og virkja varnir gegn spillingu.

Markmiðið er að byggja betra samfélag fyrir alla og við gerum það með lausnum sem virka, óháð því úr hvaða átt þær koma.

Stjórnmálanálgun framtíðarinnar
Flokkar til hægri og vinstri sem nálgast stjórnmál eins og trúarbrögð munu alltaf fórna góðum lausnum á altari takmarkandi hugmyndafræði sinnar. Framtíðin getur aldrei orðið á forsendum slíkra stjórnmála. 

Þess vegna höfum við Píratar frá fyrsta degi stundað öðruvísi stjórnmál. Við erum eini flokkurinn sem tekur ákvarðanir út frá gögnum og rökum, ekki takmarkandi hægri/vinstri hugmyndafræði. Við skiptum um skoðun þegar forsendurnar breytast í stað þess að sitja föst við okkar keip og við styðjum góðar hugmyndir – sama hvaðan þær koma. Því mætti segja að við nálgumst stjórnmál frekar eins og vísindi en trúarbrögð. Ég trúi því einlæglega að eina leiðin til þess að takast á við stærstu úrlausnarefni samtímans, hvort sem það eru loftslagsbreytingar, fjórða iðnbyltingin eða Covid-19, þá er það með þessari nálgun.

Eina leiðin til að segja til um framtíðina er að móta hana, og við vitum hvert við ætlum að fara: Í átt að velsældarsamfélagi sem hvílir á nýrri stjórnarskrá, hagkerfi framtíðarinnar, sanngjörnum leikreglum og virðingu við náttúru og fólk.

Framundan eru sögulegar kosningar. Vinnum þær saman.

Greinar eftir sama höfund

Skattarnir sem þú sérð ekki

Við Píratar erum stundum gagnrýnd fyrir það að tala mikið um aðgerðir...

Ólöglegar skerðingar?

Ég fékk mjög áhugaverða ábendingu um Tryggingastofnun (TR) í gær. Ég ætla...

Dýr eru dýrmæt í borgarsamfélaginu

Við í Reykjavíkurborg höfum ákveðið að sameina alla þjónustu við dýr í...

Skiljum fortíðina og sköpum framtíðina

Opnunarræða á aðalfundi Pírata, 21. ágúst.Síðustu 18 mánuðir hafa einkennst af umróti....

Píratar afhjúpuðu hláleg vinnubrögð Alþingis

Í gegnum tíðina hafi margir haft orð á því að starfshættir Alþingis...

Spilling er pólítísk ákvörðun

Píratar berj­ast gegn spill­ingu vegna þess að þannig sköpum við betra og...

On­lyFans, klám og ó­skyn­sam­legar refsingar

Umræðan um klám er mikilvæg og henni er hvergi nærri lokið. Það...

Rasismi gegn Íslendingum

Síðustu vikur og mánuði hef ég reynt að vera sýnileg í framboði...
X
X