Alþingisrýnirinn hefur það að markmiði stuðla að auknu aðhaldi og aukum samskiptum þings og þjóðar, með því að gera störf þingsins og framlag stakra þingmanna sýnilegri en þau hafa verið til þessa.

Alþingisrýnirinn vinnur úr opinberum gögnum Alþingis og setur þau fram með nýjum hætti svo hægara sé að átta sig á því hvernig kjörnir fulltrúar þjóðarinnar hafa kosið í umdeildum málum. Á vefnum má sjá yfirlit yfir 100 umdeildustu málin sem kosið var um á síðasta kjörtímabili og fram kemur hvernig atkvæðin féllu í hverju máli fyrir sig. Vefurinn gefur einnig þingmönnum einkunnir fyrir mætingu og flokkshollustu og sýnir í hvaða málum þingmenn gerðu uppreisn gegn flokkum sínum.

Þegar þingstörf hefjast að nýju verður Alþingisrýninum breytt til að leggja meiri áherslu á störf nýja þingsins svo almenningur geti fylgst með því hvernig stakir þingmenn efna kosningaloforð sín í mikilvægum málum.

Kóði rýnisins er sumargjöf Pírata til þjóðarinnar árið 2013 og var gefinn út sem frjáls hugbúnaður. Áhugasamir aðilar, til dæmis aðrir stjórnmálaflokkar eða Alþingi sjálft, geta því notað kóða Pírata til að búa til sinn eigin Alþingisrýni, breyttan, bættan og sniðinn að þörfum sínum.

Verið er að vinna í að koma Alþingirýnisíðunni aftur í loftið með nýja vefnum.