Skip to main content

Markmið Pírata: Virkt lýðræði

Virkt lýðræði

Þú hefur rétt á þátttöku í málum sem varða þig.
Dómgreind fjöldans skal ekki vanmetin. Saman erum við sterk.

Heilbrigt lýðræði, almenning til áhrifa

Innleiðum málskotsrétt og frumkvæðisrétt þjóðarinnar. Almenningur þarf alvöru verkfæri til að stöðva lög sem sett eru í óþökk þjóðar án þess að þurfa að fara með bænaskrá til Bessastaða eða kasta drasli í þinghúsið. Til að geta haft áhrif á forgangsröðun mála á þingi þarf almenningur að geta lagt fram mál á Alþingi. Málskotsréttur þjóðarinnar veitir aðhald og tryggir bætt vinnubrögð á þingi og frumkvæðisréttur þjóðarinnar færir vald og ábyrgð í hendur fólksins. Hvort tveggja er tryggt í nýju stjórnarskránni.

Opið og öflugt Alþingi

Alþingi nýtur afar lítils trausts meðal landsmanna og það er ein brýnasta áskorun íslenskra stjórnmála. Píratar hafa ýmsar tillögur að úrbótum á störfum þingsins sem hægt er að innleiða strax. Þeirra á meðal er að ráðherrar séu ekki þingmenn á sama tíma, að fundir fastanefnda þingsins verði að jafnaði opnir, að þingmál lifi á milli þinga í stað þess að falla niður eins og nú er og að forseti Alþingis hafi dagskrárvald í reynd, geti vísað vanbúnum málum til baka í ráðuneytin og neitað að taka þau á dagskrá. Sömuleiðis að sett verði á fót sérstök lagaskrifstofa Alþingis sem og ný þverpólitísk þingmannanefnd (Framtíðarnefndin) þar sem unnið verði markvisst að langtímamarkmiðum og stefnum.

Eflum vitund um lýðræði og þjóðfélagsmál með þjálfun í gagnrýnni hugsun

Lýðræði gerist ekki sjálfkrafa. Samfélagssáttmálinn byggist á samtali, samþykki og samvinnu. Eflum kennslu um lýðræði, heimspeki og samfélagsmál og þjálfun í gagnrýnni hugsun og lýðræðislegum vinnubrögðum á öllum skólastigum.

Veitum stjórnvöldum meira aðhald

Valdi fylgir ábyrgð. Grunnurinn að góðu samfélagi er skiljanleg stjórnarskrá þar sem allir geta skilið rétt sinn og ábyrgð valdhafa. Óháðir fjölmiðlar eru nauðsynlegur hluti þess að fylgjast með valdinu. Gagnsæ stjórnsýsla er nauðsynleg til þess að fjölmiðlar og almenningur geti sinnt lýðræðislegu hlutverki sínu.

Lýðræðið þarf að iðka á milli kosninga

Lýðræði er miklu meira en kosningar, það snýst um stjórnarfar og tækifæri til þátttöku. Stjórnvöld eiga að bjóða borgurum til þátttöku á öllum stigum mála; frá skilgreiningu vandans til lausnar á honum. Virkjum upplýsingatæknina, borgarafundi og annars konar nýsköpun lýðræðis til að efla almannavald á milli kosninga.

Stefna Pírata:
Ný stjórnarskrá: “Með lögum skal tryggja almenningi aðgang að undirbúningi ákvarðana sem hafa umtalsverð áhrif á umhverfi og náttúru svo og heimild til að leita til hlutlausra úrskurðaraðila.”