Skip to main content

Markmið Pírata: Velferðarstefna

10. Velferðarmál

Virðum rétt allra til að lifa með reisn.

Afnemum tekjuskerðingar

Afnemum öll skilyrði á borð við fyrirkomulag búsetuforms, hjúskaparstöðu, tekjuskerðingar, tekjutengingar og tímamörk lífeyrisbóta og innleiðum þess í stað viðmiðunarfjárhæð sem telst nægjanleg til framfærslu og mannsæmandi lífs. Heimila skal tekjur meðfram bótum án þess að bætur skerðist, þeir sem vilja og geta eiga rétt á því að taka þátt í atvinnulífinu án þess að vera refsað fyrir það. Allir hafa rétt á að bæta aðstæður sínar með eigin athafnasemi og örorka á ekki að vera sjálfkrafa dómur um líf á lágmarksframfærslu.

Bætum kjör aldraðra

Ísland var áður land yngri kynslóðanna þar sem hlutfallslega voru miklu fleiri ungir en eldri. Nú er að myndast jafnvægi í fólksfjöldadreifingu milli yngri og eldri Íslendinga og vegna þess verðum við að byggja upp lífeyriskerfi sem virkar fyrir núverandi aldurssamsetningu samfélagsins. Búsetuúrræði fyrir aldraða þarf að bæta og starfslok þurfa að vera sveigjanlegri en nú er.

Lögfestum lágmarksframfærsluviðmið

Allir eiga rétt á mannsæmandi framfærslu í auðugu landi. Lágmarksframfærsluviðmið eru nauðsynleg til þess að tryggja það að allir geti lifað með reisn.

Einföldum framfærslukerfið

Píratar vilja einfalda og straumlínulaga öll framfærslukerfin svo að réttindi allra borgara til lágmarksframfærslu og tækifæra séu virt með skilvirkum hætti. Viðmót þjónustustofnana miðist við þarfir notandans; ferlið sé einfaldað, komið í veg fyrir tvíverknað og eyðublaðaburð á milli stofnana. Leitast skal við að samræma félagsbætur, atvinnuleysisbætur, örorkubætur, barnabætur, fæðingarorlof, námslán og önnur stuðningskerfi hins opinbera til að einfalda yfirsýn og tryggja sömu réttindi milli ólíkra hópa.

Lýðræðislegir lífeyrissjóðir

Lífeyrissjóðakerfið verði lýðræðisvætt. Stjórn lífeyrissjóða verði í höndum sjóðsfélaga, sem kjósi alla stjórnarmeðlimi í lýðræðislegum kosningum.

Stefna Pírata um lýðræðisvæðingu lífeyrissjóðanna

Skjól fyrir alla

Á Íslandi er kalt og veðrasamt og það er öllum lífsnauðsynlegt að hafa þak yfir höfuðið. Öruggt húsaskjól eru mannréttindi sem tryggja ber öllum borgurum, hvort sem það er í gegnum eign, leigu eða úrræði á vegum hins opinbera. Píratar vilja styðja við leigjendasamtök og fjölbreytt úrval búsetukosta. Píratar vilja grípa til aðgerða til að bregðast við aukinni eftirspurn um húsnæði og standa vörð um réttindi bæði eigenda og leigjenda.

Ný stjórnarskrá: “Öllum skal með lögum tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis.”

Leiðréttum stöðuna fyrir leigjendur

Stjórnvöld þurfa að setja hagsmuni leigjenda í forgang með stöðugum og regluvörðuðum leigumarkaði. Þannig komum við í veg fyrir miklar sveiflur á húsnæðismarkaði og bjóðum fólki upp á aukinn sveigjanleika og öryggi. Það þýðir að fólk getur valið að leigja til lengri eða skemmri tíma án þess að óttast að vera sagt upp húsnæði með litlum fyrirvara. Möguleikinn á að leigja til langframa nýtist bæði þeim sem vilja spara fyrir eigin húsnæði og þeim sem hugnast ekki að kaupa húsnæði.

Stefna Pírata um leigumál

Styttum vinnudaginn

Breyta skal lögbundinni vinnuviku úr 40 tímum í 35 tíma. Að tveimur árum liðnum skuli áhrifin af þeirri breytingu metin og ákvörðun tekin um framhaldið.

Stefna Pírata um styttingu vinnutíma