Skip to main content

Markmið Pírata: Umhverfismál

6. Umhverfismál

Sjálfbærni sem leiðarstef.

Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum

Á undanförnum áratugum hefur orðið ljóst að mannkynið er að ganga verulega á auðlindir jarðar og náttúru með fyrirsjáanlega hrikalegum afleiðingum fyrir komandi kynslóðir. Ábyrg umgengni við náttúruna og sjálfbær nýting auðlinda eru nauðsynleg forgangsmál. Tökum fullt tillit til alþjóðaviðmiða og samninga í umhverfismálum og leyfum náttúrunni að njóta vafans. Framfylgja skal megingildum sjálfbærrar þróunar í verki.

Í nýrri stjórnarskrá segir:
“Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda. Í því felst að fjölbreytni lands og lífríkis sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum. Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og gildi náttúrunnar og hagsmunir komandi kynslóða séu virt.”

Hálendisþjóðgarður – Verndum viðkvæma náttúru miðhálendisins

Miðhálendið er ein dýrmætasta perla landsins. Þar má finna eldfjöll, jökla, vatnsmiklar ár og fossa, litrík háhitasvæði, víðfeðm hraun og svartar sandauðnir sem kallast á við viðkvæmar gróðurvinjar. Saman mynda þessi náttúrufyrirbæri stórbrotnar landslagsheildir á einum stærstu víðernum Evrópu. Þessa þjóðargersemi þarf að vernda til framtíðar.

Í nýrri stjórnarskrá segir:
“Með lögum skal tryggja að allir hafi aðgang að óspilltri náttúru.”

Styðjum við rafbílavæðingu

Píratar vilja stuðla að rafbílavæðingu Íslands, m.a. með því að huga að innviðum og með fjárhagslegum ívilnunum sem stefni að því að auka hlutfall rafbíla. Almenn orkumála- og umhverfisstefna ætti að innihalda markmið um rafbílavæðingu og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að ná þeim markmiðum.