Skip to main content

Markmið Pírata: Sjávarútvegsstefna

5. Sjávarútvegsmál

Kerfisbreyting án kollsteypu – Auðlind í almannaeigu.

Allar aflaheimildir á uppboð

Íslenska ríkið, fyrir hönd þjóðarinnar, á að bjóða aflaheimildir upp til leigu á opnum markaði og skal leigugjaldið renna í ríkissjóð. Skulu öll úrslit uppboða vera opinberar upplýsingar. Með þessum hætti væri jafnræði, nýliðun og sanngjarn arður þjóðarinnar af fiskveiðiauðlind hennar tryggður.

Í nýrri stjórnarskrá segir:
“Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.”

Allur afli á markað

Allur afli skal fara á markað til að gera viðskipti með sjávarútvegsafurðir eðlilegri og bæta hag sjómanna, minni sjávarútvegsfyrirtækja og annarra fyrirtækja sem vinna með aukaafurðir. Þetta myndi stuðla að eðlilegri verðmyndun á afurðum, jafna möguleika fiskvinnslna í landinu og tryggja að arðurinn af auðlindinni sé ekki fluttur úr landi.

Frjálsar handfæraveiðar

Handfæraveiðar verði frjálsar og gerðar aðgengilegar þeim sem kjósa að stunda þær til atvinnu. Tilgangurinn er að stuðla að nýliðun og sjálfbærri nýtingu sjávar ásamt kærkominni búbót fyrir gjörvallt landið. Kerfið verði einfaldað og sveigjanleiki aukinn til að auðvelda nýjum aðilum að stofna og reka útgerð. Handfæraveiðar skulu háðar skynsamlegum takmörkunum og fjölda leyfa á einstaklinga, lögaðila og eftir tegundum báta.