Skip to main content

Markmið Pírata: Menntastefna

9. Menntamál

Menntun er grunnstoð samfélagsins.

Tryggjum öllum aðgengi að námi óháð efnahag og búsetu

Aðgangur allra að menntun eru mikilvæg mannréttindi sem stuðla að jafnari tækifærum allra til að nýta hæfileika sína og ná markmiðum sínum. Vel menntaðir borgarar stuðla að upplýstara samfélagi. Píratar vilja tryggja landsmönnum réttindi til menntunar samkvæmt grein nýrrar stjórnarskrár.

Ný stjórnarskrá: “Öllum skal í lögum tryggður réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Öllum þeim sem skólaskylda nær til skal standa til boða menntun án endurgjalds.
Menntun skal miða að alhliða þroska hvers og eins, gagnrýninni hugsun og vitund um mannréttindi, lýðræðisleg réttindi og skyldur.”

Leiðréttum grunnframfærslu LÍN

Grunnframfærsla LÍN skal leiðrétt og miðuð við eðlilegar fjárþarfir fólks í námi. Stefnt skal að afnámi tekjuskerðingar námslána og því að LÍN veiti nemendum lán við upphaf náms, svo að þeir þurfi ekki að leita til einkaaðila á þeim tímapunkti. Leita þarf leiða til þess að hluti af námslánum verði styrkur.

Förum finnsku leiðina

Tökum okkur finnska menntakerfið til fyrirmyndar í auknum mæli. Stefnum að fjölbreyttara námsmati, auknu jafnvægi á milli bóknáms, verknáms, listnáms og annarra greina, minna heimanámi, smærri bekkjum o.fl.