Skip to main content

Markmið Pírata: Heilbrigðisstefna

8. Heilbrigðismál

Örugg heilbrigðisþjónusta án endurgjalds.

Endurreisum gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu

Við eigum öll rétt á fullnægjandi heilbrigðisþjónustu; jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu eru grundvallarmannréttindi sem allir skulu njóta. Stefnt skal að því að heilbrigðisþjónusta og nauðsynleg lyfjakaup verði gjaldfrjáls. Aðbúnaður og kjör heilbrigðisstarfsfólks verði bætt verulega og fjársvelti heilbrigðiskerfisins hætt. Uppboð ríkisins á tímabundnum afnotum af sjávarauðlind landsmanna getur tryggt endurreisn heilbrigðisþjónustunnar og gjaldfrelsi hennar um fyrirséða framtíð.

Í nýrri stjórnarskrá segir:

“Öllum skal með lögum tryggður réttur til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er, þ.m.t. réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni og ómenguðu andrúmslofti. Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.”

Átak í geðheilbrigðismálum – Þjónusta sálfræðinga verði hluti af sjúkratryggingum

Geðheilbrigði er eitt brýnasta viðfangsefni okkar tíma og stjórnvöld þurfa að gera mun betur í að styðja við gjaldfrjálsa geðheilbrigðisþjónustu. Sérstaklega er mikilvægt að ungmenni með geðrænar raskanir fái viðeigandi og fullnægjandi aðstoð. Stefnt skal að því að þjónusta sálfræðinga verði hluti af sjúkratryggingum.

Afglæpavæðing vímuefna

Refsistefnan hefur brugðist. Vímuefnamisnotkun er heilbrigðisvandamál sem þarf að leysa sem slíkt. Nálgumst fíkn sem heilsufarslegt og félagslegt vandamál frekar en sem glæp og veitum vímuefnaneytendum í vanda aðstoð í stað þess að refsa þeim.

Þjónusta tannlækna verði hluti af sjúkratryggingum

Tannheilsa er órjúfanlegur þáttur í heilsu einstaklinga og engin ástæða til að aðskilja hana sérstaklega frá annarri heilbrigðisþjónustu. Stefnt skal að því að þjónusta tannlækna verði hluti af sjúkratryggingum.

Nýr spítali á góðum stað til framtíðar

Píratar vilja halda áfram þeirri uppbyggingu sem hafin er við Landspítalann við Hringbraut; viðhaldi, endurnýjun á tækjakosti og byggingu sjúkrahótels. Á sama tíma viljum við setja af stað faglega, óháða staðarvalsgreiningu á helstu mögulegum staðsetningum nýja Landspítalans á höfuðborgarsvæðinu. Þeirri úttekt ætti að vera lokið innan árs og ætti að taka mið af svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og þróun íslenskrar heilbrigðisþjónustu til framtíðar. Í kjölfarið verði landsmönnum falið að velja milli helstu valkosta í vandaðri viðhorfskönnun eða þjóðaratkvæðagreiðslu.