Skip to main content

Markmið Pírata: Gagnsæi og upplýsingafrelsi

4. Gagnsæi og upplýsingafrelsi

Þetta kemur þér víst við!

Gagnsæ og opin stjórnsýsla

Gagnsæi er nauðsynleg forsenda fyrir ábyrgð og fyrir upplýstri þátttöku almennings í lýðræðinu. Til að fyrirbyggja spillingu þarf ábyrgðin að vera skýr og upplýsingar um ákvarðanir aðgengilegar öllum. Valdeflum einstaklinga með betra aðgengi og betri upplýsingum. Upplýsingar þurfa að vera aðgengilegar og skiljanlegar, þ.e. bæði á mannamáli og á opnu, tölvutæku sniði.
Ný stjórnarskrá: “Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að þeim.”

Lögfestum samning SÞ gegn spillingu


Vinnum gegn spillingu og notum til þess alþjóðlega viðurkenndar og sannreyndar lausnir. Með aðild Íslands að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu fyrir 6 árum samþykkti Alþingi að slíkar lausnir skyldi setja í lög – það þarf að klára.

Nútímaleg vernd höfundaréttar

Höfundar eiga rétt á að njóta ágóða af verkum sínum. Lög um höfundarétt þarf að endurskoða til að þau taki betur mið af þróun samfélagsins og upplýsingatækninnar, með það að markmiði að gera höfundum kleift að afla tekna af verkum sínum án þess að framfylgni laganna bitni á almannahagsmunum, borgararéttindum eða hefðbundnum ferlum réttarríkisins.

Leita skal leiða til að styrkja rétt höfunda, sérstaklega gagnvart milliliðum, á sama tíma og tjáningarfrelsi, netfrelsi og friðhelgi einkalífs borgaranna er virt.

Endurskoða og samræma þarf löggjöf um höfundarétt innan evrópska efnahagssvæðisins og á alþjóðavísu; svo sem lög um gildistíma höfundaréttar, sæmdarrétt, höfundarétt í almenningsrýmum (e. freedom of panorama), undanþágur vegna skopstælinga (e. freedom of parody), notkun hugverka í menntatilgangi, leyfi til gagnaúrvinnslu, stafræna útgáfu verka o.fl.

Upplýsingafrelsi – Upplýsingar eru forsenda upplýsingar

Forsenda heilbrigðs lýðræðis er aðgengi almennings að upplýsingum og réttur okkar til að safna og skiptast á upplýsingum án afskipta stjórnvalda. Stjórnvöld eiga að beita upplýsingatækni í mun ríkari mæli til að koma gögnum á framfæri, sinna þjónustu og hafa samráð við borgarana.

Í nýrri stjórnarskrá segir:
“Öllum er frjálst að leita eftir, taka við, safna og miðla upplýsingum og hugmyndum.”

Netfrelsi – Friðhelgi einkalífsins gildi líka á netinu

Tryggjum friðhelgi einkalífs alls staðar. Afnemum gagnageymd og heimildir til að safna og selja persónuupplýsingar einstaklinga. Fólk ráði sjálft með hvaða hætti það birtist samfélaginu.

Beitum okkur gegn ritskoðun og brotum gegn friðhelgi einkalífs, t.d. almennu rafrænu eftirliti. Áfram verði þó hægt að beita sértækum aðgerðum gegn einstaklingum, með dómsúrskurði, þegar rökstuddur grunur er um lögbrot, sérstaklega þegar kemur að barnavernd.

Tjáningarfrelsi

Stjórnvöld skulu stefna að því að Ísland verði leiðandi aðili í vernd upplýsinga- og tjáningarfrelsis á alþjóðavísu. Refsiréttarákvæði um meiðyrði falli niður og þau færð í einkarétt, með tilheyrandi niðurfellingu fangelsisrefsingar. Meiðyrðalöggjöf verði almennt endurskoðuð til að vernda betur tjáningarfrelsi hinna valdaminni í samfélaginu.

Ný stjórnarskrá: “Með lögum skal tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að takmarka aðgang að netinu og upplýsingatækni nema að uppfylltum skilyrðum 29. gr.”

Klárum IMMI (Icelandic Modern Media Initiative)

Árið 2011 samþykkti Alþingi einróma þingsályktunartillögu um að Ísland skyldi skapa sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Í þessu felst m.a. að tryggja betur vernd afhjúpenda, fjölmiðla og heimildarmanna þeirra; að fyrirbyggja lögbann á útgáfu og að tryggja réttlátari málsmeðferð gagnvart sakborningum í meiðyrðamálum.

Almennt er stefnt að því að gera öll skjöl aðgengileg öllum á netinu og að erlendir fjölmiðlar og samtök geti haft rafrænt aðsetur hér á landi í skjóli þessa umhverfis. Píratar vilja fylgja þessu máli í höfn af festu og lögfesta þau frumvörp sem hafa verið lögð fram á grundvelli IMMI.