Skip to main content

Markmið Pírata: Efnahagsstefna

7. Efnahagsmál

Upplýst nálgun

Markmið efnahagsstefnu er að styðja við virka samkeppni, nýsköpun og hagvöxt sem staðið geta undir velferð og grunnstoðum samfélagsins. Píratar “trúa” hvorki á einkarekstur né opinberan rekstur, heldur vilja beita því sem best hefur reynst á hverju sviði fyrir sig.

Skattheimta standi undir grunnstoðum

Það er ekki sjálfstætt markmið Pírata að hækka eða lækka skatta, heldur er markmið skattheimtu ríkisins að hið opinbera geti tryggt grunnstoðir samfélagsins; svo sem heilbrigðiskerfi, menntakerfi, almannatryggingakerfi, löggæslu, vegakerfi o.s.frv., þar sem megináherslan er lögð á gæði og jafnt aðgengi.

Bindum enda á skattaundanskot og þunna eiginfjármögnun

Við viljum leita uppi fjársjóði Íslendinga í skattaskjólum og tryggja að alþjóðleg fyrirtæki sem starfa á Íslandi greiði skatta á Íslandi, með því að koma í veg fyrir að hagnaði þeirra sé komið úr landi sem vaxtagreiðslur til móðurfyrirtækis.

Fjármál hins opinbera verði opin, tölvutæk, gagnsæ og sundurliðuð

Bókhald ríkissjóðs og ríkisstofnana skal gert aðgengilegt á tölvutæku formi að því marki sem sjónarmið persónuverndar leyfa. Við alla álagningu skatta skal áhersla lögð á að skatturinn sé sýnilegur og skiljanlegur greiðanda. Afurðir sem tengjast verkefnum fjármögnuðum af opinberu fé skulu almennt vera í almannaeigu og þar með opin og aðgengileg öllum. Eignarhald lögaðila skal vera opið og rekjanlegt.

Ábyrg efnahagsstjórn

Alþingi á að setja langtímaáætlun í opinberri þjónustu og hvorki að skila afgangi né safna skuldum nema í samræmi við langtímaáætlanir. Til að tryggja hagsmuni almennings skulu ábyrgð, stöðugleiki, sjálfbærni og langtímamarkmið vera skýr í öllum efnahagsmálum.