Skip to main content

Salvör Kristjana Gissurardóttir

Reykjavíkurkjördæmi norðurHver er píratinn og af hverju er hún hér?

Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?

Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið málum sínum framgengt á þingi?

Myndir þú segja af þér þingmennsku ef þú sæir þér ekki fært um að vinna með þingflokki pírata?

Ferilskrá frambjóðanda: 

Ferilskrá frambjóðanda (á pdf formi)

Síða frambjóðandans á kosningavef Pírata

Heimasíða frambjóðandans

Hagsmunaskráning frambjóðanda:

 

Ég heiti Salvör Kristjana og er ein af stofnendum Pírata á Íslandi. Ég var í 4. sæti á lista Pírata í Reykjavík norður fyrir síðustu Alþingiskosningar og hef undanfarin ár tekið virkan þátt í grasrót og málefnastarfi pírata, sérstaklega því sem fram fer í netmiðlum og reynt að stuðla að málefnalegri umræðu.

Það sem sameinar
Ég tók þátt í undirbúningsstarfinu fyrir stofnun flokksins og beitti mér þar einkum fyrir að við sem komum úr ýmsum áttum og með margs konar viðhorf og bakgrunn fyndum þann samhljóm sem þarf til að umbreyta samfélagi með manngildi og virðingu fyrir lífi að leiðarljósi. Í því skyni þýddi ég “Pirate Codex” og lagði til að píratar á Íslandi gerðu að sáttmála sínum þær grunnreglur sem á íslensku eru kallaðar Píratakóðinn (http://piratar.is/stefna/piratakodinn/). Þetta eru ennþá mitt hjartans mál að menn finni samstöðu og þar með slagkraft til að breyta samfélagi þannig að virðing sé borin fyrir lífi og náttúru og allir hafi sem mest mannréttindi, athafnafrelsi og tjáningarfrelsi og vald yfir eigin lífi en líka vitund um að það þarf að vernda þá sem minni völd og aðstöðu hafa fyrir yfirgangi.
Brýnt er að ná á Íslandi samstöðu og sátt um hvernig þjóðfélag við viljum búa og starfa í, við þurfum nýja stjórnarskrá. Mikilvægt og brýnt samfélagsmál á Íslandi er að ná aftur yfirráðum á auðlindum þjóðar og tryggja afgjald af auðlindum og umráðarétt almennings um það umhverfi sem fólk byggir lífsafkomu sína og búsetu á. Það er brýnt að breyta stjórnarskrá miðað við tillögur stjórnlagaráðs og breyta stjórnarháttum með það að leiðarljósi að vald almennings verði meira. Píratar eru líka það stjórnmálaafl sem mestan slagkraft hefur til að krefjast þeirra mannréttinda fyrir almenning að hafa aðgang að upplýsingum til að geta tekið upplýstar ákvarðanir og tekið þátt í alvöru lýðræði þar sem fólk en ekki fyrirtæki ráða skipan samfélagsins

Borgaralaun
Á undirbúningsfundum fyrir stofnun pírata á Íslandi hóf ég umræðu um borgaralaun (óskilyrta grunnframleiðslu) og lagði til að upptaka borgaralauna yrði hluti af stefnu pírata og sérstakur málefnahópur stofnaður um það málefni. Upptaka borgaralauna er að mínu viti ein fær og réttlát leið til að laga samfélag okkar að tíma þar sem störf eru að hverfa vegna sjálfvirkni og tæknibreytinga og það eru ekki eingöngu einhæf verksmiðjustörf sem hverfa heldur einnig störf sérfræðinga, miðstéttin þurrkast út og ójöfnuður eykst. Við þurfum öðruvísi kerfi en það kerfi alþjóðavæðingar og aflandsvæðingar sem nú er við lýði þar sem fjármagn svífur um háloftin og sogast að örfáum ríkum og breytist þar í þumalskrúfur og fjötra til að hefta og merja til auðsveipni allan þorra almennings.

Gerendamenning (maker culture)
Ég hef seinustu ár verið mjög upptekin að skoða hvernig samfélag við erum að fara inn í og hvers konar færni og umhverfi við þurfum og í því sambandi sérstaklega skoðað fyrirbæri eins og hakkarasamfélög og Hackerspaces og samfélög um opinn vélbúnað og opinn hugbúnað og hina svokölluðu “maker movement” eða diy hreyfingu núna þegar iðnaðarsamfélagið þar sem vörur eru fjöldaframleiddar með því að steypa þau í form er á undanhaldi og upp er að spretta annars konar framleiðsla, framleiðsla þar sem margir vinna saman á annan hátt og varan er spunnin eftir forskriftum (forritum) , ekki steypt og framleiðslan þarf ekki stórar verksmiðjur heldur er hún framleidd af þeim sem ætlar að nota hana, framleidd eða spunnin í tækjum eins og þrívíddarprenturum og sífellt IoT tækni færist inn á sífellt fleiri svið. Við lifum á tímum sem margir sjá sem nýja og öfluga iðnbyltingu en þau samfélags- og þjóðfélagskerfi sem við höfum miða ennþá á mörgum sviðum við fjöldaframleiðslu iðnaðarsamfélagins. Það er brýn nauðsyn að samfélag okkar lagi sig að nýjum veruleika og það sé meðvitund sem flestra og skilningur á þeim breytingum sem eru óhjákvæmilegar og samræða um hvernig samfélag sé mögulegt og hvernig samfélag sé fýsilegt. Það er mikilvægt að í stjórnmál veljist fólk sem sér hvaða kerfi eru að velta um koll og hver verða möguleg áhrif tæknisamfélagsins á líf okkar og samfélag og afkomumöguleika og valfrelsi fólks. Við þurfum að taka afstöðu til hvort við viljum að tækni og ýmis konar aðföng séu aðgengileg almenningi til endurblöndunar í eigin verk og hvort við viljum samfélag þar sem maðurinn stýrir tækninni eða samfélag þar sem tæknin stýrir mönnunum.

Hvers vegna varð ég Pírati
Það sem dró mig upprunalega að pírötum var 1) brýn þörf fyrir hreyfingu sem beitti sér gegn þeim höftum sem reynt er að setja á tjáningarfrelsi á netinu m.a. með úreltum höfundarréttarlögum og hugverkaréttindum, lögum sem taka ekkert mið á þeim veruleika sem við búum við núna bæði hvað varðar miðlun upplýsinga og framleiðslu og sköpun 2) mikilvægi þess að sporna gegn eftirlitsæði, að hindra að valdamiklir aðilar s.s. stjórnvöld eða fyrirtæki nýti samskiptatækni nútímans til að njósna um og vakta einstaklinga og 3) vitund um hve mikilvægir almenningar (Commons) og almenningseign eru fyrir nútímasamfélag, ekki síst almenningar um stafrænar eignir og réttindi. Ég hef séð hvernig opinn hugbúnaður hefur umbylt landslagi í hugbúnaðargerð og ég hef sjálf tekið afar mikinn þátt í að byggja upp almenninga með því að skrifa inn mikinn fjölda greina í íslensku wikipedia og setja þar inn myndir, allt efni sem ég vona að nýtist einhverjum öðrum í þekkingarleit,sköpun eða stafrænni endurblöndun.

Ég er ekki Pírati vegna þess að ég sé harðlínu hægrimanneskja sem trúir í blindni á frelsi einstaklinga til nautna og neyslu. Ég er fyrst og fremst samvinnumanneskja sem held að samfélagsskipun okkar og framleiðsluhættir séu að breytast og það sé mikilvægt að breyta leikreglum til að tryggja rétt allra og jafnræði.

Félagsstörf/aktivismi
Ég hef verið aðgerðasinni lengi og starfað með ýmsum mannréttindasamtökum. Ég var í mörg ár virk í starfi Kvennalistans og var lengi í framkvæmdanefnd sem stýrði starfinu í Reykjavík. Þegar Femínistafélag Íslands var stofnað var ég stofnfélagi og ein af ráðskonum félagsins og sá ég um vefmálin, setti upp vefsíður og ýmis konar vefkerfi og hafði umsjón með vefsíðu og póstlista og alls konar mjög umfangsmikilli netbaráttu félagsins. Frá Hruni hef ég mest starfað með þeim samtökum sem hafa spornað gegn því að Íslendingar og almenningur í öðrum löndum væri hnepptur í skuldaþrælahald og að peningaveldi og fjármálagjörningar gætu smogið inn á krísutímum og svelgt undir sig auðlindir og almenningseigur. Ég er stofnfélagi og í stjórn Íslandsdeildar Attac (sjá http://www.attac.is). Ég er talsmaður almenninga og almenningseignar og vinnubragða sem byggja á samvinnu þar sem allir hagnast af því að byggja upp samana og harður talsmaður Creative Commons. Ég hef tekið öflugan þátt í uppbyggingu íslensku Wikipedia og skrifað margar greinar þar sjálf og fengið aðra til að skrifa greinar og verið talsmaður slíkra opinna gagnasafna. Við sem erum virk í greinaskrifum fyrir Wikipedia stofnuðum félag wikipedianotenda á Íslandi og er ég í stjórn þess. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá frelsisverðlaun FSFI (félags um stafrænt frelsi) á árinu 2012 og það var ekki síst fyrir framlag mitt til Wikipediasamfélagsins. Til gamans má geta að margir og eiginlega flestir af þeim frumherjum íslenskra pírata sem ég þekkti þegar ég byrjaði að starfa eru fólk sem ég kynntist einmitt gegnum Wikipedia eða hreyfingar um opinn hugbúnað. Það má líka nefna að ég hef tekið þátt í mörgum stafrænum bloggsamfélögum og verið ötull bloggari og samfélagsrýnir í bloggheimum og notað ýmsa samfélagsmiðla til ýmis konar samfélagsumræðu.

Nám og störf
Ég er háskólakennari og undanfarna áratugi hefur það verið mitt aðalstarf að mennta og upplýsa starfandi kennara, kennaranema og aðra sem ætla að starfa í menntakerfinu um hvernig við getum notað stafræna tækni við kennslu svo sem hvernig Internetið gerir fjarkennslu og netkennslu mögulega og hvaða valkostir séu varðandi slík kerfi og uppbyggingu netlægs námsefnis, hvernig nota megi tölvuleiki til náms, hvernig kennarar geta sett fram og notað efni á netinu og hvernig netumhverfið getur breytt skólastarfi o.s.frv. Fyrsta háskólagráða mín var reyndar í viðskiptafræði og hagfræði en seinna fór ég í kennslufræði/upplýsingatækni í skólastarfi. Ég kenndi fyrst í nokkur ár viðskiptagreinar og tölvufræði í framhaldsskólum og tækniskólum. Síðar fór ég í framhaldsnám í kennslufræði og námsefnisgerð og kenndi eftir það kennaranemum við Kennaraháskólann og síðar við Háskóla Íslands. Ég hef mest verið við kennslu en hef tvisvar verið um tíma í ráðuneytum, ég var námstjóri í Menntamálaráðuneytinu áður en ég fór í framhaldsnám og ég var fyrir nokkrum árum sérfræðingur í málefnum upplýsingasamfélagsins hjá Forsætisráðuneytinu í sérstöku verkefni sem tengdist opinberri stefnu m.a. um aðgengi almennings að upplýsingum.

Ég hef búið í netheimum síðan elstu menn muna og þar má rekja spor mín á ýmsum vefsetrum.
Hér eru nokkur:
http://blog.piratar.is/salvor/
http://www.salvor.is
http://www.facebook.com/salvor.kristjana
https://twitter.com/salvor
http://salvor.blog.is (ég er reyndar núna nánast hætt að blogga hjá Mogganum eins og allir með einhverja sjálfsvirðingu sem ekki vilja vera tengdir auglýsingapappír kvótaeigenda)
http://www.ismennt.is/not/salvor/meinhorn/blogger.html

Ég er í sambúð og á tvær uppkomnar dætur. Ég bý í Reykjavík á veturna en reyni að vera sem mest á Vestfjörðum á sumrin og um jól og páska. Þar sé ég vel og svíður með hvernig framleiðslubreytingar og kvótakerfið hefur leikið sjávarbyggðirnar. Ég hef yndi af garðyrkju og skógrækt og er ég með skógræktarreit í Borgarfirði og landgræðslulóð á Rangárvöllum.