Skip to main content

Hinrik Konráðsson

NorðvesturkjördæmiHver er píratinn og af hverju er hann hér?

Er maður á besta aldri (40) ára, búsettur í Grundarfirði á Snæfellsnesi. Á tvo yndislega drengi, Mikael Mána og Sindra, með eiginkonu minni Sigríði Arnardóttur. Er uppalin í Keflavík en flutti á nesið fyrir fjórtán árum síðan. Hef verið í Pírataflokknum frá ársbyrjun 2016 og var í stjórn Pírata á Vesturlandi fyrir alþingiskosningar 2016 og tók sæti á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi fyrir kosningarnar. Ég starfa sem bæjarfulltrúi í Grundarfirði, lögreglumaður og sögukennari við Fjölbrautaskóla Snæfellinga.

Ég er hér því ég vill breytingar á okkar stjórnsýslu. Spilling, klíkuskapur og eiginhagsmunagæsla hafa fengið að ráða of lengi í íslenskum stjórnmálum sem hefur hamlað því að mál á Alþingi séu unnin á gegnsæan og heiðarlegan máta svo úr verði besta niðurstaðan fyrir íslensku þjóðina. Ég er tilbúinn að leggja á mig þá vinnu sem þarf á Alþingi svo íslenska þjóðin geti aftur farið að treysta því að hagsmunir hennar séu settir í fyrirrúmi við allar ákvarðanartökur og vonandi í framtíðinni fái hún að taka sjálf sínar ákvarðanir með þjóðaratkvæðagreiðslum.

Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?

Ný stjórnarskrá, heilbrigðismál, auðlindamál og málefni öryrkja, fatlaðra og eldri borgara. Þetta eru mál sem ég myndi telja brýnust fyrir komandi kjörtímabil.

Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já, tillögur stjórnlagaráðs voru samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu 20.október og ber að virða vilja þjóðarinnar.

Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið málum sínum framgengt á þingi?

Með því að vinna heimavinnu sína vel og undirbúa mál á gegnsæan og heiðarlegan máta oftast í samvinnu með öðrum þenkjandi flokkum þá ættum við að geta komið okkar málum á framfæri. Samstarf er lykilatriði á alþingi og vonandi með nýrri kynslóð þingmanna í öðrum flokkum fá okkar vinnubrögð meiri hljómgrunn á Alþingi.

Myndir þú segja af þér þingmennsku ef þú sæir þér ekki fært um að vinna með þingflokki pírata?

Já, þingsætið er ekki mín eign og ber mér að virða það að ég var kosinn sem frambjóðandi Pírata.

Ferilskrá frambjóðanda: 

Þessa daganna starfa ég sem bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs í Grundarfirði fyrir L – listann, lista fólksins. Einnig er ég lögreglumaður hjá lögreglunni á Vesturlandi frá því í febrúar og sögukennari í hlutastarfi hjá Fjölbrautaskóla Snæfellinga.
Var í 5 ár fangavörður á Kvíabryggju og þar áður lögreglumaður á Snæfellsnesi í 8 ár. Skellti mér í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri í náttúrur- og umhverfisfræði og útskrifaðist þaðan með B.s. vorið 2016.

Lauk lögregluskóla ríkisins árið 2003 en hafði þar áður starfað við fiskvinnslu, lagerstörf og verið þjónustufulltrúi hjá Símanum.
Hef unnið við ýmis stjórnarstörf hjá íþróttafélögum í Grundarfirði en var einnig formaður Alþjóðlegra ungmennasamskipta (AUS) árið 2001.

Síða frambjóðandans á kosningavef Pírata

Hagsmunaskráning frambjóðanda:

Er í stjórn Jeratúns efh sem er í eigu allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi. Hlutverk félagsins er bygging og rekstur skólahúsnæðis Fjölbrautaskola Snæfellinga í Grundarfirði. Stjórnarstarfið er launalaust.

Annað

Afhverju á að kjósa mig í prófkjörinu? Þetta er spurningin sem allir frambjóðendur velta fyrir sér áður en lagt er af stað inn í þessa baráttu og skal ég reyna að svara því eftir bestu getu. Ég er einlægur baráttumaður fyrir heiðarlegum og gegnsæum vinnubrögðum í stjórnsýslu og hef reynt að vinna eftir þeim formerkjum í bæjarstjórn Grundarfjarðar. Ég hef reynslu af stjórnsýslu í gegnum starf mitt sem bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs þar sem málin eru leyst þvert á pólítík. Í gegnum störf mín sem lögreglumaður, fangavörður og bæjarfulltrúi hef ég öðlast reynslu að vinna með fólki, hlusta á fólk og virða þeirra skoðanir.