Skip to main content

Helgi Már Friðgeirsson

Reykjavíkurkjördæmi suðurÉg heiti Helgi Már og gef kost á mér á lista Pírata í Reykjavík Suður í það sæti þar sem meðlimir telja að kraftar mínir nýtist best.

Ég er bóndasonur að norðan en hef aðallega starfað við öryggisgæslu eftir búferlaflutninga í höfuðstaðinn, þó með viðkomu í verslunargeiranum. Ég er mikið nörd og hef komið töluvert að félagsstarfi gegnum ýmiskonar spil og starfaði sem formaður Hugleikjafélags Reykjavíkur allan starfstíma þess en hef einnig haldið ýmiskonar fyrirlestra og kynningar á spunaspilum sem kennsluaðferð eða sem þroskatæki.

Ég hef stutt Pírata síðan þeir komu fyrst fram á sjónarsviðið og þótt það hafi farið lítið fyrir mér í fundarstarfi Pírata vegna árekstra við vinnu og fjölskyldulíf þá hef ég lengi fylgst með starfinu og fyllst stolti. Ég hef á þeim tíma lagt mig fram við að dreifa orðinu bæði í net og kjötheimum. Nú er kominn tíminn til að leggja starfinu lið fyrir alvöru og er mér slétt sama á hvaða hátt það verður.

Ég er ákveðin, opinskár, staðfastur og á auðvelt með að tjá mig hvort sem það er á prenti eða í pontu. Starf mitt hefur kennt mér að vera árvökull og yfirvegaður en einnig að öll vandamál er hægt að leysa með blöndu málamiðlunar, ákveðni og áræðni.

Ég legg áherslu á gegnsæi, lýðræði, jöfnuð og velferðarmál og tel að þar sé víða pottur brotinn í samfélaginu. Einnig tel ég að Píratar séu að mörgu leyti best til þess fallnir að laga það, með aðstoð þeirra flokka sem láta sig málið varða hverju sinni.

Ég hlakka til að vera messagutti á þjóðarskútunni þegar dreginn hefur verið fjólublár fáni við hún og langar að þakka öllum þeim gífurlega frambærilegum frambjóðendum sem gefið hafa kost á sér víða um land.”