Skip to main content

Hallur Guðmundsson

SuðvesturkjördæmiHver er píratinn og af hverju er hann hér?

Píratinn er Hallur Guðmundsson. Lífsmottó mitt er “ÞÚ VEIST EKKI NEMA ÞÚ REYNIR” og því skráði ég mig í prófkjör Pírata.

Ég er samskipta- og miðlunarfræðingur frá Háskólanum á Bifröst og ég lauk námi í júní 2017. Ég starfa sem Þjónustufulltrúi hjá bílaleigunni Enterprise, Keflavíkurflugvelli og er tónlistarmaður í frístundum. Ég bý í Hafnarfirði ásamt eiginkonu, tveimur dætrum og tveimur köttum.

Ég hef um talsvert skeið verið mjög áhugasamur um starfsemi Pírata og fundist ég eiga heima þar. Það væri fásinna að áætla að ég væri sammála öllu því sem Píratar hafa upp á að bjóða en Píratar komast næst því. Ég er hrifinn af því að flokkurinn skuli ekki vera hugmyndafræðilega stefnuvirkur, þ.e.a.s. bindur sig ekki fastan við kapítalisma, sósíalisma, demókratisma og hvað þetta heitir allt saman. Píratar eru meira svona “brot af því besta” flokkur sem nælir í skynsamlegustu aðferðir hverrar stefnu fyrir sig og gerir að sínum.

Fyrir mörgum árum vann ég með öðrum stjórnmálaflokki og þekki það hark sem fer fram innan stjórnmálaflokka. Sá flokkur fjarlægðist mig og ég varð að kaffistofunöldrara. Þegar kaffistofunöldrið var farið að færast að kvöldmatarborðinu fékk fjölskyldan nóg og hálfpartinn bannaði mér að tala um pólitík heima fyrir. Ég ræði ekki stjórnmál við stjúpa minn og tengdaforeldrar mínir ræða ekki lengur stjórnmál við mig – þar ber mikið í milli. Konan mín og dætur urðu reyndar ekkert kátar með framboðsyfirlýsinguna en það var annað hvort að hlusta á mig tuða við kvöldmatinn eða að bjóða mig fram.

Ég hef ekki komið að starfi Pírata með beinum hætti áður. Ég hef átt það til að tjá mig á spjallborðum en ekkert sem valdið hefur straumhvörfum.
Ég tel Pírata taka skynsemi fram yfir stefnuvirka hugmyndafræði á borð við hreinan kapítalisma, hreinan sósíalisma og þar fram eftri götunum. Flestar stefnur eiga sér jákvæða punkta og þá ber að nýta. Fyrir mér hefur stefna Pírata í flestum málum verið „brot af því besta“ frá öðrum stjórnmálaflokkum.

Ég á gott með að vinna með fólki og hlusta alltaf á góðar tillögur. ég reyni yfirleitt að leita að málamiðlunum í deilum og í kringum mig er oftast góður andi þó ég segi sjálfur frá. Ég er jákvæður og er nokkuð viss um að ég sé með það hreinan skjöld að ég verði Pírötum ekki til vandræða með fortíð minni.

Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?

Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta fyrir alla (líka tannlækningar og sálfræðiþjónusta), aðgengi að námi fyrir alla og nýja stjórnarskrá strax. Auk þess vil ég að stigið verði varlega til jarðar í höfundarréttarmálum. Ég vil ljúka viðræðum við ESB án skuldbindinga og láta kósa um aðild að undangenginni mikilli kynningu á samningnum.

Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Sú vinna sem unnin hefur verið er góður grunnur að frumvarpi. Það er ljóst að frumvarpið fer aldrei í gegn án breytinga en er sterkur grunnur.

Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið málum sínum framgengt á þingi?

Með hófsemi, skynsemi og framtakssemi. Það má notast við Stuðmannafrasann “Eitthvað hæfilega væld en samt þannig að snyrtimennskan sé í fyrirrúmi”.

Myndir þú segja af þér þingmennsku ef þú sæir þér ekki fært um að vinna með þingflokki pírata?

Ég myndi segja af mér og sætið fengi varamaður. Á meðan flokkar eru kosnir og listar í framboði þá þykir mér ekki sanngjarnt að einstaklingar geti flakkað um með sætið sitt milli flokka. En ef persónukjör væri viðhaft þá væri hins vegar ósanngjarnt að binda sætið við flokk.

Ferilskrá frambjóðanda:

http://vefstjorn.hallur.net/ferilskra/

Síða frambjóðandans á kosningavef Pírata

Heimasíða frambjóðandans

Podcast frambjóðanda

Kynningarmyndband frambjóðanda

Hagsmunaskráning frambjóðanda:

Ég sit ekki í neinum stjórnum eða ráðum og er eingöngu óbreyttur starfsmaður á núverandi vinnustað. Ég á innan við þúsund króna eignarhlut í Klakka (hlutabréf sem voru í Símanum en fylgja nú þessu félagi)