Skip to main content

Björn Ragnar Björnsson

Reykjavíkurkjördæmi suðurMér eru mörg mál hugleikin: Frelsi, jafnræði borgaranna, borgararéttindi, lýðræði, efnahagsmál, peningamál, heilbrigðismál, innviðauppbygging, auðlindirnar.

Ég styð frelsi einstaklinga til að haga sínu lífi hver á sinn á hátt án óumbeðinna og óeðlilegra afskipta yfirvalda. Að ýmsu leyti tel ég yfirvöld ganga lengra en nauðsynlegt er og góðu hófi gegnir í þeim efnum, má þar nefna tjáningarfrelsi, vímuefnanotkun. Bráðaðkallandi er að hinu stórskaðlega “Stríði gegn fíkniefnum” linni.

Ég styð jafnræði borgaranna í hvívetna, gegn því ganga yfirvöld á ýmsan máta, sérstaklega í efnahagslegu tilliti. Úrvinnsla Hrunsins er ein samfelld sorgarsaga um mismunun borgaranna. Frá ómunatíð hefur fólki verið mismunað í bóta-,  stuðnings- og tilfærslukerfum stjórnvalda.

Ég hef tuðað áratugum saman gegn því á hvern hátt sjávarauðlind þjóðarinnar er ráðstafað og þar hefur ekki bara þjóðin öll borið skarðan hlut heldur má ekki gleyma þeim einstaklingum sem hafa bótalaust verið fórnarlömb “rausnarskaps” stjórnmálamanna og duttlunga útgerðarinnar.

Vextir verða að lækka og verðtrygging verður að fara. Það er ólíðandi að stjórnvöld, lífeyrissjóðir og fjármálastofnanir taki höndum saman um að festa almenning í mjaltavélar sínar, ævina á enda.

Heilbrigðiskerfið er stundum að því er virðist í molum, amk eru þar pottar brotnir. Var sameining stóru spítalanna til heilla?  Var til heilla að leggja svo að segja af heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni? Á að reisa spítala við Hringbraut? Um þetta hef ég nokkuð vel studdar efasemdir. Það er ekki víst að kerfið og þjónustan batni þó við grýtum meira fé í málaflokkinn.

Ekki hefur verið haldið nægilega til haga hinu semfélagslega tapi sem felst í því hve illa innviðum hefur verið sinnt frá hruni. Rukkun fyrir það er væntanleg en kemur á versta tíma sem viðbót við þenslu sem orðin er í þjóðarbúskapnum.

Nýja stjórnarskráin er lang, lang, stærsta borgararéttindamálið sem á okkur brennur. Sú stjórnarskrá er niðurstaða málamiðlana þar sem tekist var kröftuglega á. Ég er ósammála því að í næstu lotu verði byrjað á þeim punkti og málum miðlað enn á ný í átt til þeirra sem hafa hagsmuni af því að almenningur hafi takmörkuð völd.

Ég er stærðfræðingur frá HÍ en hef jafnframt lagt stund á framhaldsnám í tölvunarfræði og hagfræði. Ég starfa nú á Hagstofu Íslands sem sérfræðingur við gerð þjóðhagsspár.

Á vinnumarkaði hef ég margháttaða reynslu, lengst hef ég starfað sem kerfishönnuður, forritari og kerfisstjóri, en þar á eftir sem sérfræðingur í efnahagsmálum hjá Fjármálaráðuneytinu og síðar Hagstofu Íslands. Talsverða reynslu hef ég ennfremur sem byggingarverkamaður og húsbyggjandi.

Ég er í sambúð og mig eiga að auki þrír synir og tveir litlir hundar. Við búum í Norðlingaholti.

Hagsmunatengsl hef ég ekki önnur en ég hygg að raun sé á með stærstan hluta þjóðarinnar.

Bloggsíðan mín
Facebook síðan mín