Stjórnarmyndunarviðræðum slitið

Kæru Píratar

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, mun hitta forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson kl 17:00 í dag þar sem hún skilar stjórnarmyndunarumboðinu sem henni var falið þann 2.desember síðastliðinn.

Atburðarás dagsins var með þeim hætti að klukkan 12:30 hófst fundur formanna Pírata, Vinstri grænna, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar um framhald stjórnarmyndunarviðræðna flokkanna fimm.

Fundinum lauk kl 14:50 og var niðurstaðan sú að viðræðum verður ekki fram haldið.

Mikil málefnavinna hefur farið fram undanfarna tíu daga og var áhersla lögð á erfiðustu viðfangsefnin. Mjög lítið bar á milli og sátt hafði náðst um flest málin.

Píratar sýndu í þessum stjórnarmyndunarviðræðum að við erum flokkur sem ber hag almennings fyrir brjósti og er tilbúinn til að gera málamiðlanir án þess að fara yfir eigin sársaukaþröskuld.

Þessar stjórnarmyndunarviðræður sem nú er lokið, boða nýja tíma í íslenskum stjórnmálum, enda voru ný vinnubrögð við stjórnarmyndun kynnt til sögunnar og við lítum svo á að við höfum plantað fræjum fyrir stjórnmálamenn framtíðarinnar.