Álit Úrskurðarnefndar vegna álitamála á útfærslu á Úrskurði nr. 7/2016

Ágætu Píratar og aðrir áhugasamir,

Úrskurðarnefnd Pírata hefur orðið þess vör að úrskurður nefndarinnar í máli 7/2016 hafi valdið ákveðnum misskilningi um þýðingu úrskurðarins fyrir framkvæmd prófkjara. Úrskurðarnefnd hefur því ákveðið að gefa út álit og útskýra og útlista þar með nánar þau atriði er vakið hafa upp spurningar meðal félagsmanna og annarra um þýðingu úrskurðarins fyrir framkvæmd prófkjara Pírata og taka þar af allan vafa.

Í fyrsta lagi er vert að taka fram að úrskurður nr. 7/2016 beinist að einu ákveðnu prófkjöri og því ber ekki að líta svo á að úrskurðarorð nefndarinnar feli í sér að haga skuli öðrum prófkjörum með þeim hætti er fram kemur í úrskurðinum, nema að því leiti er varðar almenna framkvæmd á grein 14.5. úr lögum Pírata. Fyrsti liður þessa álits snýr að því að aðgreina þann hluta úrskurðarorðanna sem snúa aðeins að kjördæmaráði Norðausturkjördæmis („NA“) og ekki að almennri framkvæmd prófkjara á landsvísu.

Í annan stað hafa vaknað upp spurningar um tímamörk endurtalningarákvæðis greinar 14.5. úr lögum Pírata. Úrskurðarnefnd hafa borist fyrirspurnir þess efnis hvort ákvæði 14.5. feli í sér skyldu kjördæmaráða til þess að endurtelja og þar með endurraða á lista ef ske kynni að frambjóðendur ákveða að láta fjarlægja sig af lista löngu eftir að framkvæmd prófkjara er lokið, jafnvel degi fyrir kosningar til Alþingis. Annar liður þessa álits snýr að því að afmarka hvenær endurtalningarákvæði 14.5. liðar í lögum Pírata á við.

Í þriðja lagi hafa vaknað upp spurningar í kjölfar skýringa Úrskurðarnefndar á afmörkun Úrskurðarnefndar á því hvenær endurtalningarákvæði 14.5. á við um hvenær líta megi svo á að listi Pírata fyrir ákveðið kjördæmi sé endanlegur listi sem ekki ber að endurtelja á ný.  Þriðji liður þessa álits snýr að því að útskýra hvenær endanlegir listar liggja fyrir og hvernig bregðast skuli við ef frambjóðendur ákveða að hafna sæti á endanlegum lista

 

1.Hvað varðar úrskurð Úrskurðarnefndar þess efnis að Kjördæmaráð NA skyldi bjóða frambjóðendum sem höfnuðu sæti að endurskoða afstöðu sína í kjölfar endurtalningar atkvæða

 

Úrskurðarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að kjördæmaráð Norðausturkjördæmis hafi ekki farið rétt að grein 14.5. þegar einstaklingar sem tóku þátt í prófkjöri Pírata á Norðausturlandi höfnuðu sæti á lista þegar niðurstöður prófkjörsins lágu fyrir. Samkvæmt lögum Pírata bar kjördæmaráði að endurtelja niðurstöður prófkjörsins í hvert skipti sem frambjóðandi hafnaði sæti að brottfelldum þeim frambjóðanda sem hafnaði sæti. Þar á eftir bar kjördæmaráði að  staðfesta að allir frambjóðendur sem eftir voru, væru samþykkir nýrri sætaröðun ef hún breyttist við endurtalningu. Slíka endurtalningu bar kjördæmaráð að framkvæma í hvert skipti sem frambjóðandi ákvað að hafna sæti á meðan röðun á lista prófkjörsins stóð yfir.

Niðurstaða Úrskurðarnefndar í máli nr. 7/2016 var sú að slík endurtalning hafi ekki farið fram við framkvæmd prófkjörsins í Norðausturkjördæmi. Á þeim grunni var kjördæmaráði Norðausturkjördæmis gert að endurtaka uppröðun á lista með lögmætum hætti og á þeim grunni var kjördæmaráði gert að bjóða þeim frambjóðendum sem höfnuðu sæti á lista, tækifæri til þess að endurskoða afstöðu sína. Nánar tiltekið áttu þeir frambjóðendur sem höfnuðu sæti á lista sem raðað var upp á gagnstætt lögum Pírata, að fá tækifæri til þess að endurskoða afstöðu sína gagnvart rétt röðuðum lista, ef endurtalning leiddi í ljós breytta sætaskipan.

Vert er að ítreka að kjördæmaráði Norðausturkjördæmis var gert að bjóða frambjóðendum sem höfnuðu sæti á lista í prófkjöri Pírata á Norðausturlandi að endurskoða afstöðu sína í ljósi þess að rangt var staðið að röðun á lista í því kjördæmi og því gætu þeir frambjóðendur hafa tekið ákvörðun um að hafna sæti á röngum forsendum.

Úrskurðarnefnd vill taka af allan vafa um að þeim frambjóðendum sem boðið er sæti á lista í kjördæmi þar sem farið er að lögum Pírata við röðun og hafna því sæti, býðst ekki að endurskoða afstöðu sína eftir að endurtalning að brottfelldum þeim frambjóðanda hefur farið fram.

Þetta þýðir að ef löglega er að prófkjöri staðið og kjördæmaráð eða aðildarfélag fylgja reglum Pírata við uppröðun á lista fá frambjóðendur sem hafna sæti á lista ekki tækifæri til þess að endurskoða afstöðu sína þegar endurtalning liggur fyrir. 

 

 2. Hvað varðar tímamörk endurtalningarákvæðis greinar 14.5. úr lögum Pírata.

 

Úrskurðarnefnd hafa borist spurningar um tímamörk ákvæðis greinar 14.5. úr lögum Pírata. Nánar tiltekið barst úrskurðanefnd erftirfarandi spurning:

„Lög Pírata kveða ekki á um að forgangskosningalista þurfi að staðfesta eins og mörg kjördæmisráð hafa þó ákveðið að gera. Í ljósi þessa úrskurðar vaknar sú spurning hvort endurtelja þurfi framboðslista og fá staðfestingu frambjóðenda í hvert sinn ef einhver frambjóðandi fellur eða víkur af lista, jafnvel ef slíkt gerðist einum degi fyrir alþingiskosningar?“

Úrskurðarnefnd svaraði spurningunni á þessa leið:

Úrskurðarnefnd tekur undir að lög Pírata segi ekki fyrir um að staðfestingakosning skuli fara fram að loknum prófkjörum á kjörsvæðum. Nokkur kjördæmaráð hafa þó ákveðið að fara þessa leið og lá ákvörðun þeirra fyrir áður en prófkjör fóru fram og voru allir frambjóðendur og félagsmenn meðvitaðir um þær áætlanir. Því mættu kjördæmaráð færa rök fyrir því að ákvörðun þeirra byggist á grein 14.1. úr lögum Pírata þar sem fram kemur að ábyrgðaraðila framboðs Pírata beri að setja skýrar reglur um framkvæmd framboðs, sem og grein 14.6., þar sem fram kemur að ábyrgðaraðila sé heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd prófkjara.

Líta verður svo á að ef rétt er að kosningu og endurtalningu staðið og frambjóðendur hafi staðfest vilja sinn til þess að vera í því sæti er þeim býðst með endanlegum hætti væri ekki æskilegt né nauðsynlegt að hefja endurtalningu og endurröðun að nýju ef frambjóðendur hafna sæti sínu að því loknu. Ljóst er að í Norðausturkjördæmi var ekki rétt staðið að endurtalningu þegar frambjóðendur höfnuðu sæti og því er óljóst hvort að réttur listi lá fyrir þegar listaröðun fór fram og áður en staðfestingarkosning fór fram.  Að mati Úrskurðarnefndar verður því ekki litið svo á að framkvæma þurfi endurtalningu og endurtaka þurfi staðfestingarkosningu ef ske kynni að fleiri frambjóðendur kjósi að hafna sæti sínu á lista og fjarlægja sig þar með af honum eftir að listar liggja endanlega fyrir, ef röðun á lista var framkvæmd samkvæmt lögum félagsins.

Loks er vert að minna á að lög um kosningar til Alþingis koma í veg fyrir að frambjóðendur geti hafnað sæti á lista framboðsins allt að fimmtán dögum fyrir kosningar. Í 35. grein  kosningarlaganna segir:

„Frambjóðandi getur afturkallað samþykki sitt til framboðs fram til þess að frestur til að skila framboðum rennur út.“

Ennfremur segir í 30. grein sömu laga:

„Þegar alþingiskosningar eiga að fara fram skulu öll framboð tilkynnt skriflega yfirkjörstjórn þeirri sem í hlut á eigi síðar en kl. 12 á hádegi 15 dögum fyrir kjördag.“

Því er ekki hægt að sjá fyrir sér að einstaklingur geti hafnað sæti á lista degi fyrir Alþingiskosningar.

 

 3. Um hvenær líta megi svo á að framboðslisti Pírata sé endanlegur

 

Úrskurðarnefnd hefur ennfremur verið beðin um að útskýra nánar hvað felist í svari Úrskurðarnefndar í lið númer 2 er hún segir:

“Líta verður svo á að ef rétt er að kosningu og endurtalningu staðið og frambjóðendur hafi staðfest vilja sinn til þess að vera í því sæti er þeim býðst með endanlegum hætti væri ekki æskilegt né nauðsynlegt að hefja endurtalningu og endurröðun að nýju ef frambjóðendur hafna sæti sínu að því loknu.”

Svar Úrskurðarnefndar er á þessa leið:

Aðildarfélög eða kjördæmaráð bera ábyrgð á framkvæmd prófkjara Pírata og þau geta sett nánari reglur um framkvæmd þeirra samkvæmt lögum Pírata. Á meðan þær reglur stangast ekki á við lög landsfélagsins ættu þær í raun að nægja til þess að segja til um hvenær endnalegur listi er tilbúinn, þaes. þegar ferlinu sem aðildarfélögin/kjördæmaráðin auglýsa fyrir kosningu að verði farið eftir, er lokið.

Í tilviki NA er gert ráð fyrir staðfestingarkosningu til þess að listi verði endanlegur. Í þessu tilfelli var þó ekki farið að lögum Pírata við framkvæmd kosninga. Lög Pírata má líta á sem æðri lög sem gangi framar þeim reglum er kjördæmaráð setur sér. Grein 14.5. tekur til framkvæmdar prófkjara.  Einhvern tímann er þó framkvæmd prófkjara lokið. Nánari útfærsla er á höndum aðildarfélaga eða kjördæmaráða. Því ber að líta svo á að á meðan lögum landsfélagsins er fylgt telst prófkjöri lokið og listi endanlegur þegar því ferli sem kjördæmaráð/aðildarfélag hefur auglýst sem ferli prófkjörs er lokið.

Til skýringar: Eftir að kjördæmaráð NA hefur fylgt úrskurði Úrskurðarnefndar og endurtalið á lögmætan hátt, ásamt því að bjóða frambjóðendum ný sæti til staðfestingar, ef sætaröðun breytist ber þeim að efna til nýrrar staðfestingarkosningar. Þetta á aðeins við ef röðun á lista breyttist vegna endurtalningarinnar. Ef svo fer og ný staðfestingarkosning fer fram á grundvelli nýrrar sætaröðunar þar sem allir aðilar á lista hafa veitt samþykki sitt fyrir því sæti sem þeim er boðið og listinn er staðfestur í staðfestingarkosningunni telst listinn endanlegur og þá þarf ekki að endurtelja hann aftur ef svo vill til að frambjóðandi hafni sæti í framhaldi af því.

Píratar geta þó ekki meinað frambjóðendum að fella sig af lista allt þar til 2 vikur eru til kosninga, en þá taka landslög fyrir að frambjóðendur geti dregið framboð sitt til baka. Kjósi frambjóðandi að draga sig af lista eftir að listi liggur fyrir í sinni endanlegu mynd ættu viðeigandi frambjóðendur að færast upp um sæti en Úrskurðarnefnd lítur ekki svo á að hægt sé að krefjast endurtalningar að nýju, eftir að endanlegur listi liggur fyrir.

Úrskurðarnefnd vill að lokum ítreka að mikilvægt er fyrir trúverðugleika og styrk félagsins Píratar að félagar þess fylgi reglum þess í hvívetna og af kostgæfni. Því er æskilegt að allir sem sinna ábyrgðarhlutverkum innan félagsins kynni sér lögin vel áður en allar mikilvægar ákvarðanir eru teknar eða framkvæmdar til þess að forðast meigi ágreining og deilumál síðar meir. Vakni upp efasemdir um túlkun og rétta framkvæmd laganna má leita til Úrskurðarnefndar til þess að fá úr þeim skorið. Meðlimir nefndarinnar lýsa sig boðna og búna til þess að aðstoða félagsmenn við túlkun og framkvæmd laga Pírata.

 

 

Með vinsemd og virðingu,

Úrskurðarnefnd Pírata,

 

Helgi Bergmann

Olga Cilia

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir