Áfangaskýrsla Pírata í Reykjavík

 

Borgarpíratar rokka ReykjavíkPíratar fengu einn fulltrúa kjörinn í borgarstjórn Reykjavíkur í kosningum þann 31. maí 2014.

Í kjölfarið var gerður meirihlutasáttmáli Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata sem borinn var upp til samþykktar félagsmanna í Pírötum í Reykjavík sem staðfestu hann.

Borgarfulltrúi Pírata í Reykjavík sem og aðrir fulltrúar þeirra í ráðum og nefndum borgarinnar hafa nú starfað samkvæmt meirihlutasáttmálanum og sinni eigin stefnu í hálft kjörtímabil.

Helstu verkefni Pírata í borginni hafa falist í því að fylgja eftir Píratastefnunni í þeim málum sem koma inn á okkar borð og leita leiða til að koma okkar áherslum að og hafa áhrif.

Varanleg áhrif nást helst með því að taka þátt í að móta stefnu borgarinnar en eitt besta dæmið um það er ný upplýsingastefna Reykjavíkurborgar sem er afurð þeirrar vinnu sem hefur farið fram í stjórnkerfis- og lýðræðisráði með aðkomu annarra Pírata og fleira góðs fólks.

Næsta stóra tækifæri fyrir Pírata til að koma í gegn stefnumálum sínum felst í vinnu við að setja þjónustustefnu fyrir Reykjavíkurborg en sú vinna er unnin í stýrihópi sem skipaður var af stjórnkerfis- og lýðræðisráði og er undir formennsku oddvita Pírata í Reykjavík. Einnig mun stjórnkerfis- og lýðræðisráð vinna lýðræðisstefnu fyrir borgina.

Jafnframt hefur verið ákveðið að tillögu stjórnkerfis- og lýðræðisráðs að stofna rafrænt þjónustuver í borginni, sem er eining sem mun hafa umboð og fjármagn til að vinna þvert á borgarkerfið að samræmingu og nauðsynlegum umbótum á sviði rafrænnar þjónustu.

Á kjörtímabilinu hefur hefur líka verið ráðist í endurskoðun á mannréttindastefnu borgarinnar og þar gefast tækifæri til að koma Pírataáherslum að.

Betri Reykjavík hefur fengið nýtt og töluvert flottara útlit þó mestan heiður af því eigi Íbúar ses, sem þróa og reka kerfið. Stefnumótun gagnvart því hvernig lyfta megi Betri Reykjavík upp á næsta stig er í fullum gangi hjá borginni. Nú stendur yfir árleg hugmyndasöfnun um framkvæmdir í hverfum sem lýkur 15. júní. Framkvæmdapotturinn hefur verið aukinn úr 300 milljónum í 450 milljónir og söfnunin hefur farið vel af stað. Kosið verður milli hugmynda í nóvember.

Kjörtímabilið hefur síðan einkennst af því að fjárhagsstaða sveitarfélaga hefur þrengst og hjá þeim hefur almennt farið fram töluverð hagræðingarvinna til að draga úr útgjöldum. Hjá Reykjavíkurborg felur þetta meðal annars í sér mikla rýningu á borgarkerfinu sem skilar sér í tillögum að kerfisbreytingum sem ætlað er að auka hagkvæmni. Líta má á þetta sem tækifæri til að koma að nýjum áherslum í rekstrinum og er rafrænt þjónustuver eitt dæmi um það.

Eftirfarandi er yfirferð yfir stefnumál Pírata í Reykjavík lið fyrir lið; hvað hefur unnist og hvar þarf að gefa í á síðari hluta kjörtímabilsins.

 

Stjórnsýsla og lýðræði

1. Borgarstjóri sé fulltrúi almennra borgarbúa inn í borgarstjórn og aðhaldsafl gagnvart henni í þeirra beina umboði. Því sé eðlilegast að hann verði kosinn beinni kosningu af borgarbúum. Borgarstjóri skuli því á næsta kjörtímabili ráðinn til tveggja ára til að byrja með. Á því tímabili skuli leitast við að breyta sveitarstjórnarlögum og skapa lagaramma fyrir kosningar á borgarstjóra og hlutverk hans. Að því loknu skuli fara fram slík kosning.

Ekki hefur náðst í gegn þessi breyting á sveitarstjórnarlögum. Mögulega mun skapast meira rými til þess á næsta kjörtímabili þingsins, eftir kosningar í haust.

 

2. Stefnt skuli að því að gagnsæi í stjórnsýslunni verði algjört og nái til allra ferla við ákvarðanatökur. Fundargerðir og önnur opinber skjöl verði gerð aðgengileg á netinu. Tryggja beri að upplýsingar um öll útgjöld borgarinnar, dótturfyrirtækja hennar, byggðarsamlaga og ráðstöfun styrkja sem borgin veitir séu gefnar upp. Upplýsingar á rafrænu formi séu settar inn tímanlega og uppfærðar reglulega. Slík upplýsingagjöf lúti þó í öllum tilfellum viðeigandi persónuverndarsjónarmiðum og lögum.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Gagnsæi og aukið íbúalýðræði er eitt af meginverkefnum kjörtímabilsins. Markmiðið er að auka traust, bæta upplýsingamiðlun og hvetja til lýðræðislegrar þátttöku. Stjórnkerfis- og lýðræðisráð verði fastanefnd í stjórnkerfi borgarinnar. Ráðið hafi það hlutverk að finna og þróa leiðir til að opna stjórnkerfi og bókhald borgarinnar, bæta skilvirkni og viðmót þjónustunnar og auka þátttöku íbúa í ákvarðanatöku.“

2015 var sett ný upplýsingastefna fyrir Reykjavíkurborg þar sem áherslur Pírata skila sér vel. Unnið er að aðgerðaáætlun fyrir stefnuna samhliða greiningarvinnu vegna hagræðingar hjá borginni.

 

3. Að skilgreint verði hlutverk ábyrgðarmanns upplýsingagagnsæis hjá Reykjavíkurborg sem ber ábyrgð á því að öll gögn sem vísað er í, t.d. í fundargerðum, séu gerð auðsýnileg og aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar við allra fyrsta tækifæri.

2015 var ráðinn svonefndur erindreki gagnsæis og samráðs sem starfaði með stjórnkerfis- og lýðræðisráði að verkefnum þess og áformað var að fela honum þetta hlutverk. Hann sagði hins vegar upp störfum um áramótin 2016 og ákveðið hefur verið vegna hagræðingar að ráða ekki aftur í þá stöðu að sinni. Finna þarf þessu hlutverki annan formlegan stað í stjórnsýslunni en ljóst er þó að í upplýsingastefnunni er kveðið á um að gögn séu gerð aðgengileg og þau uppfærð tímanlega.

 

4. Þjónusta við borgarbúa verði einfölduð og gerð sjálfvirk eins og hægt er. Unnið verði þar meðal annars eftir svonefndum Áttavitum að framúrskarandi þjónustu sem voru settir niður á vegum Þjónustu- og rekstrarsviðs Reykjavíkurborgar árið 2006 en aldrei innleiddir á sínum tíma. Á „Mínum síðum“ á vef Reykjavíkurborgar verði boðið í eins miklum mæli og hægt er upp á að senda inn erindi og fylgjast með þeim rafrænt. Þegar íbúi ber fram erindi til stjórnsýslunnar skal taka við því, þar sem hann ber erindið fram, í stað þess að vísa honum annað.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Unnar verði tillögur um eflingu nærþjónustu og hlutverk hverfaráða.“

2015 skilaði starfshópur um þjónustuveitingu borgarinnar af sér skýrslu þar sem þjónusta borgarinnar er kortlögð og tillögur gerðar að úrbótum. Þar kemur meðal annars fram að heildstæða þjónustustefnu skorti hjá Reykjavíkurborg og að mun ríkari áherslu þurfi að leggja á rafræna þjónustu. Nú hefur verið stofnaður stýrihópur um þjónustustefnu undir forystu oddvita Pírata í Reykjavík sem mun skila af sér stefnu næsta haust. Einnig stendur til, samkvæmt tillögu stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, að stofna rafrænt þjónustuver. Það er stjórnsýslueining sem mun sjá um samræmingu á rafrænni þjónustu þvert á borgarkerfið og fær fjármagn til að innleiða nauðsynlegar breytingar á því til að bæta þjónustuna.

 

5. Að „Betri Reykjavík“ verði gerð enn betri með því að auka raunveruleg áhrif borgarbúa á ráðstöfun eigin skattfjár. Sett verði það markmið að borgarbúar fái beina aðkomu að ráðstöfun a.m.k. 1000 mkr. að lágmarki á ári í stað 300 mkr. líkt og nú er boðið upp á. Einnig að Betri Reykjavík, eða sambærilegar lýðræðislausnir sem byggjast á opnum hugbúnaði, verði innbyggð í vef Reykjavíkurborgar með það fyrir augum að auka tillögu- og ákvarðanarétt borgarbúa.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Gerð verði úttekt á kostum og göllum Betri Reykjavíkur og Betri hverfa og gerðar tillögur um næstu skref í rafrænu þátttökulýðræði.“

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála var fengin til að vinna úttekt og liggur hún nú fyrir. Ný útgáfa af Betri Reykjavík er komin út með betra viðmóti og auknum möguleikum. Hjá stjórnkerfis- og lýðræðisráði fer núna fram stefnumótun um hvernig lyfta megi Betri Reykjavík á næsta stig og nýta þá möguleika sem nýja útgáfan býður upp á út frá m.a. þeim ábendingum sem fram koma í úttektinni. Framkvæmdapottur í árlegri hugmyndasöfnun um verkefni í hverfunum hefur verið aukinn úr 300 milljónum í 450 milljónir.

 

6. Áhrifamáttur hverfaráða á stjórnsýsluákvarðanir verði aukinn.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Unnar verði tillögur um eflingu nærþjónustu og hlutverk hverfaráða.“

Þetta hefur verið í vinnslu hjá stjórnkerfis- og lýðræðisráði. Sú hugmynd sem þar var fleytt fram að kjósa hluta fulltrúa í hverfaráðum beinni kosningu hefur fengið ágætan hljómgrunn en að öðru leyti hefur gengið frekar hægt að skilgreina hvaða aukin hlutverk hverfaráð ættu að taka á sig. Hér þarf að gefa í.

 

7. Óháð stjórnsýsluúttekt verði gerð á því hvort spilling sé til staðar innan embættismannakerfis Reykjavíkurborgar og bregðast skuli við ef svo reynist vera.

Úttekt af þessu tagi hefur ekki verið gerð. Finna þyrfti réttan aðila til að gera hana og skilgreina aðferðafræði hennar.

 

Frjáls og opinn hugbúnaður í stjórnsýslunni:

1. Áhersla skuli lögð á að nýta frjálsan og opinn hugbúnað á öllum stigum stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélagsins þar sem því verður komið við.

Í meirihlutasáttmálanum segir að „Áhersla verði lögð á að nýta opinn og frjálsan hugbúnað, þar sem því verður við komið, á öllum stigum stjórnsýslu og þjónustu.“

Eftir þessu hefur verið unnið en á síðari hluta kjörtímabilsins þarf að greina hversu vel hefur tekist til og skoða hvort gera megi enn betur einhvers staðar.

 

2. Efla skuli fræðslu um þá valkosti sem bjóðast í hugbúnaðargeiranum.

Ekki hefur verið unnið markvisst að þessu.

 

Velferðar og forvarnarmál

1. Tryggja skuli að Reykjavíkurborg uppfylli grunnþjónustu- og framfærsluskyldur sínar gagnvart íbúum borgarinnar.

Fjárhagsstaða sveitarfélaga hefur þrengst og þau kvarta almennt undan því að erfiðara sé að láta tekjur standa undir nauðsynlegri þjónustu. Í hagræðingarvinnu hjá Reykjavíkurborg hefur áhersla þó verið lögð á að hlífa grunnþjónustunni og styrkja hana með réttri forgangsröðun.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Áhersla verði lögð á einstaklingsbundinn stuðning til sjálfshjálpar og virkni. Þeim sem þarfnast fjárhagslegrar aðstoðar verði boðin tækifæri til vinnu, náms, starfsendurhæfingar eða meðferðar. Vinnufærum einstaklingum án atvinnu verði fundin störf í samvinnu við atvinnulífið, eftir því sem kostur er. Sérstök áhersla verði lögð á forvarnir og virkni ungs fólks.“

Unnið hefur verið eftir þessum aðferðum frekar en að skilyrða fjárhagsaðstoðina, með ágætum árangri. Notendum aðstoðar hefur fækkað verulega á kjörtímabilinu en áherslan er samt sem áður á að fólk fari ekki af fjárhagsaðstoð nema það sé tilbúið til þess.

 

2. Embætti umboðsmanns borgarbúa verði styrkt og hlutverk þess útvíkkað þannig að borgarar geti leitað þangað með beiðnir um úrbætur í málum og málaflokkum.

Umboðsmaður borgarbúa hefur verið að mestu óbreytt embætti að eðlinu til þetta kjörtímabil þó því hafi færst töluvert meira í fang, en nú er komin þriggja ára reynsla á það. Næsta skref er að finna embættinu varanlegan stað í stjórnkerfinu og efla það frekar.

 

3. Efla skuli sjálfstæði þjónustumiðstöðva gagnvart stjórnsýslunni og aðkomu íbúa að starfsemi þeirra.

Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar er nú að beiðni stjórnkerfis- og lýðræðisráðs að vinna úttekt á þjónustumiðstöðvum og hvernig tekist hefur til við að ná þeim markmiðum sem lagt var upp með þegar þær voru stofnaðar á sínum tíma. Úttektin mun nýtast við frekari stefnumótun gagnvart þjónustumiðstöðvunum.

 

4. Gerð verði úttekt á því félagsstarfi sem í boði er í borginni til að samræma upplýsingar og þjónustu og efla hana til að koma í veg fyrir félagslega einangrun fólks. Sérstaklega verði hugað að aðgerðum til að draga úr einangrun fatlaðra, aldraðra og hælisleitenda.

Slík heildstæð úttekt hefur enn ekki verið gerð en ýmislegt liggur fyrir sem taka mætti saman. Starfshópur um heilsueflingu aldraðra skilaði t.d. af sér skýrslu í janúar 2016 og var hlutverk hans meðal annars að kortleggja heilsutengt félagsstarf aldraðra. Erindi sem miðar að því að efla félagsstarf og aðstöðu hælisleitenda liggur nú fyrir mannréttindaráði en borgin vill koma að málinu í samvinnu við ríkið og félagasamtök.

 

5. Gerð verði úttekt á úrræðum fyrir börn og ungmenni í vanda og fjölskyldur þeirra til að samræma upplýsingar og þjónustu og efla stuðning. Aðkoma fjölskyldna að mótun úrræða skuli efld.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Við viljum efla stuðning við fjölskyldur barna og ungmenna í vanda og samræma upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru.“

Starfshópur sem var falið að undirbúa stofnun teymis til stuðnings börnum og ungmennum með fjölþættan vanda skilaði af sér skýrslu 2015.

Áfram verður unnið á þessari braut.

 

6. Innheimta skulda einstaklinga við Reykjavíkurborg verði mannúðlegri og valkostir til endurgreiðslu verði fjölbreyttari.

Ekki hefur nóg gerst í þessu máli og Píratar í Reykjavík munu fylgja því fastar eftir á næsta helmingi kjörtímabilsins. Þó hefur fulltrúi Pírata í velferðarráði grennslast fyrir um stöðu þeirra sem skulda gjöld vegna þjónustu við börn og slíkar upplýsingar geta nýst sem grunnur að frekari stefnumótun.

 

7. Þeir sem eigi hvergi höfði að halla njóti þeirra mannréttinda að fá þak yfir höfuð. Stefnt verði að því að allir sem fá skráninguna ‘óstaðsettur í hús’ fái til dæmis smáhýsi til afnota. Allir eigi rétt á þessari þjónustu; hún verði ekki háð kvöðum. Nágrannasveitarfélög verði virkjuð til samstarfs í þessu verkefni.

Unnið hefur verið samkvæmt þessu hjá borginni; sú hugmyndafræði að heimilislausir skuli fá þak yfir höfuð án kvaða hefur fengið góðan hljómgrunn. Til dæmis hefur verið farið af stað með tilraunaverkefni í anda „housing first“ við góðar undirtektir úr pólitíkinni.

 

8. Upplýsingar um húsnæði í eigu borgarinnar verði gerðar aðgengilegar á vef Reykjavíkurborgar, íbúar fræddir um þær eignir, möguleika í húsnæðismálum og þeir hvattir til þátttöku í ákvarðanatöku um þennan málaflokk.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Söfnun, miðlun og birting upplýsinga á sviði húsnæðismála verði bætt.“

Þetta hefur þó ekki náðst nægilega markvisst í gegn en frekari tækifæri gefast til þess með innleiðingu upplýsingsstefnunnar og stofnun rafræns þjónustuvers.

 

9. Reykjavíkurborg taki vel á móti nýjum íbúum með því (t.d. í samvinnu við Þjóðskrá, þegar fólk sækir um kennitölur) að kynna þeim þá þjónustu og aðstöðu sem er í boði, sem og réttindi og skyldur.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Reykjavík taki vel á móti nýjum íbúum með því að kynna þeim réttindi og skyldur og þá þjónustu sem er í boði.“

Innan mannréttindaráðs er unnið að því að taka saman upplýsingapakka sem er ráðgert að þýða á allnokkur tungumál með það fyrir augum að einfalda nýjum borgurum lífið. Áhersla er lögð á kynningu á þjónustu til þeirra sem þurfa mest á henni að halda eða þeirra sem ekki hafa nýtt sér þjónustuna hingað til sökum skorts á upplýsingum. Tungumálakennsla fyrir nýja íbúa er forgangsmál en það er háð því að fjármagn fáist frá ríkinu.

 

10. Nauðsynlegt sé að huga vel að forvörnum á ýmsum sviðum þar sem sparnaður í þeim leiðir oft til kostnaðar síðar meir. Séð skuli til þess að forvarnaraðferðir séu ávallt fræðilega unnar, sannreyndar og árangursmetnar reglubundið. Áhersla skal lögð á fræðslu en ekki hræðslu.

Á velferðarsviði hefur það hlotið góðan hljómgrunn að gæta að forvörnum í víðtækum skilningi. Ýmis ný úrræði á borð við forvarnir gagnavrt félagslegri einangrun ungra karla hafa borið góðan árangur en í þetta mætti setja meira fjármagn og vinna mætti að forvörnum meira þvert á borgarkerfið. Þetta eru verkefni fyrir næstu ár.

 

11. Samhliða forvörnum og meðferðarúrræðum vegna fiknivanda skuli stutt við skaðaminnkandi nálganir sem draga úr þeim heilsutengdu og félagslegu vandamálum sem geta fylgt fíkn.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Áhersla verði lögð á að bæta stöðu utangarðsfólks og fíkla. Skaðaminnkandi úrræði verði efld eða tekin upp þar sem við á.“

Frú Ragnheiður, skaðaminnkandi verkefni Rauða Krossins, hlaut Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2015. Skaðaminnkun hefur fengið ágætan hljómgrunn hjá borginni en það mætti gefa betur í. Lagabreytingar myndu styðja mjög við það.

 

Skólamál

1. Hvatt verði til aukins sjálfstæðis leik- og grunnskóla og skólaþróunar varðandi kennsluaðferðir og -hætti innan ramma aðalnámskrár. Áframhald breytinga á námi og kennslu sé metið reglulega af skólasamfélaginu til að tryggja að það skili þeim árangri sem lagt er upp með. Áhrifavald kennara til stefnumótunar í skólamálum innan Reykjavíkurborgar verði aukið. Frelsi nemenda og foreldra til þess að hafa áhrif á skólaumhverfi og nám verði aukið í samræmi við aðalnámskrá.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Við viljum auka sveigjanleika og sjálfstæði kennara og skólastjórnenda til að þróa, bæta og auka fjölbreytni í skóla- og frístundastarfi í borginni, í samráði og samstarfi við foreldra og nemendur.“

Jafnframt segir: „Við viljum að börn og ungmenni hafi meiri áhrif á það hvað þau læra og markmið skóla verði að öll börn stundi nám við sitt hæfi, í samræmi við þroska, áhuga og færni.“

Í febrúar 2016 skilaði starfshópur um samráð við foreldra um skólahald af sér skýrslu.

2015 var skipaður starfshópur um aukið lýðræði barna og ungmenna.

Því er unnið markvisst eftir þessum áherslum innan borgarinnar þó næg vinna sé enn eftir.

 

2. Fjölbreyttir skólar með mismunandi áherslur og rekstrarform séu æskilegir, svo fremi sem þeir fylgja aðalnámsskrá.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Á kjörtímabilinu verður meginreglan sú að borgin sér um rekstur leik- og grunnskóla og velferðarþjónustu. Samstarf við grasrótar- og hagsmunasamtök verði skoðað, komi slíkar hugmyndir upp, sem og einkarekstur án arðsemissjónarmiða og aukinnar gjaldtöku.“

Meirihlutinn er því opinn fyrir mismuandi áherslum og rekstrarformum skóla, innan ákveðins skilgreinds ramma.

 

3. Miðað skuli við að meðallaun kennara verði sambærileg við meðalkennaralaun í OECD-ríkjum.

Nýlegir kjarasamningar kennara færðu hafa fært þeim launahækkanir og skila sveitarfélögum í átt að þessu markmiði þó enn sé nóg í land.

 

4. Unnið verði ötullega að innleiðingu nemendamiðaðs náms eins og kveðið er á um í aðalnámskrá.

Unnið er að þessu markvisst innan borgarinnar.

Starfshópur skilaði skýrslu með tillögum árið 2105.

Hjá stjórnendum skóla er lögð mikil áhersla á einstaklingsmiðað nám. Þetta var til dæmis þema öskudagsráðstefnu grunnskólakennara árið 2016. Kapp þarf hins vegar að leggja í að þessar áherslur skili sér í skólastarfið.

 

5. Gera skuli heildarúttekt á kostnaði skóla sem birt verður almenningi í auðskiljanlegu formi. Skoða skuli kostnað hvers skóla fyrir sig lið fyrir lið og jafnframt verði opnun bókhalds Reykjavíkurborgar nýtt til að finna aukið fjármagn til skólahalds í borginni. Sérstaklega verði farið yfir innri leigu skóla. Einnig verði farið yfir kostnað vegna skóla- og frístundasviðs borgarinnar og starfsemi sviðsins endurskipulögð eftir þörfum í þágu bætts skólastarfs og aðhalds í fjármálum.

Mikil hagræðingarvinna hefur átt sér stað hjá borginni og er skóla- og frístundasvið ekki þar undanskilið. Þó mætti gera betur í að birta upplýsingar um kostnað opinberlega.

 

6. Áfram skuli stefnt að skóla án aðgreiningar og rannsakað hversu mikið viðbótarfjármagn (fyrir aðstöðu, starfsþróun og fjölgun starfsfólks) þurfi til að hann verði að veruleika. Ljóst er að það fjármagn sem þurfti til að fylgja þessari fallegu hugmyndafræði almennilega úr hlaði var aldrei sett inn og af þeim sökum hefur víða skapast ástand sem kemur niður á nemendum, fjölskyldum þeirra og skólastarfi almennt. Boðið skuli upp á sérskólaúrræði fyrir þá nemendur og fjölskyldur þeirra sem þess óska.

Menntamálaráðuneytið gaf út árið 2015 skýrslu um mat á framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar.

Í skýrslunni kemur fram að það þurfi aukið fjármagn, meiri sérfræðiþekkingu, meiri faglegan stuðning og aukið svigrúm í vinnutíma kennara til að framkvæma hana með fullnægjandi hætti. Jafnframt er lagt til að frekari greiningarvinna fari fram og því er ljóst að töluverð vinna er hér eftir.

 

7. Verk- og listmenntun verði aukin verulega í samráði við skóla og óskir nemenda, sem og fjölbreyttir möguleikar nemenda til hreyfingar innan ramma skóladagsins.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Við viljum gera verk-, tækni- og listgreinum jafnhátt undir höfði og bóklegum greinum og leggja áherslu á læsi í víðum skilningi.“

Unnið hefur verið eftir þessu og er þetta einn af umbótaþáttum skóla- og frístundaráðs 2015 og 2016.

Þó er ljóst að enn er nokkuð í að hægt verði að halda því fram að verk- og listmenntun hafi verið aukin verulega.

 

8. Samgangur og samskipti skólabarna við fólk af eldri kynslóðum verði aukinn, meðal annars með mentorverkefnum og starfsþjálfun í efri stigum grunnskóla.

Sumir einstakir skólar og leikskólar eru með slík verkefni í gangi en æskilegt væri að þau næðu til fleiri skóla.

 

9. Endurskoða skuli gjaldtöku í skólum og frístundum til að koma betur til móts við tekjulágt fólk.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Gjaldskrár verði samræmdar og einfaldaðar. Á árinu 2015 verður fjármagn til skóla- og frístundasviðs aukið um 100 mkr. og árið 2016 verða settar 200 mkr. til viðbótar til lækkunar á námsgjöldum í leikskólum. Einnig verði teknir upp systkinaafslættir þvert á skólastig. Þá verði frístundakort hækkað um 5000 kr. á barn, hvort ár. Stefnt verði að því að taka frekari skref til að bæta kjör barnafjölskyldna á síðari hluta kjörtímabilsins. Þær ákvarðanir taki mið af stöðu borgarsjóðs.“

Unnið hefur verið samkvæmt þessu. Jafnframt hefur verið farið yfir stöðu þeirra barna sem ekki taka þátt í frístundamiðstöð, skólamáltíð eða öðru starfi vegna fjárhagsaðstæna og reynt að koma til móts við aðstæður þeirra. Verið er að endurskoða gjaldskrár í leikskólum samhliða lækkun á gjöldum þar og í þeirri vinnu er meðal annars til skoðunar að tekjutengja afslætti.

 

10. Fundnar verði leiðir til að efla í raun jákvætt samstarf kennara, nemenda og foreldra í samræmi við ákvæði aðalnámskrár. Lengi hefur verið misbrestur á þessu og hluti vandans liggur í tímaskorti skólafólks, enda fer hlutverkum og starfsskyldum kennara æ fjölgandi. Því þarf að breyta til að skólasamfélagið geti unnið sem heild að hagsmunum nemenda.

Ekki hefur verið unnið sérlega markvisst að þessu en það gefst vonandi svigrúm til þess að setja það í forgang á næsta hluta kjörtímabilsins.

 

11. Talkennsla, eineltisforvarnir, náms- og starfsráðgjöf og félagsráðgjöf verði efld í skólum.

Vinnuhópur um talþjálfun barna í leik- og grunnskólum skilaði af sér niðurstöðum í maí 2016 og unnið verður áfram út frá þeim.

Eineltismál hafa verið mjög í deiglunni 2016 og hefur skóla- og frístundaráð meðal annars samþykkt tillögu um að feginn verði óháður aðili til að fara yfir verkferla vegna eineltis. Píratar í Reykjavík héldu málþing um einelti 4. júní sem mun mynda grunn að stefnumótun í málaflokknum. Ljóst er að vitundarvakningu þarf gagnvart því að mikilvægt er að fyrirbyggja einelti en ekki bara bregðast við þegar það kemur upp, og Píratar í Reykjavík munu leggja sitt af mörkum til að vekja athygli á þeirri staðreynd.

Rætt hefur verið í skóla- og frístundaráði að náms- og starfsráðgjöf verði mögulega áhersluatriði á næsta skólaári.

Sérfræðiþjónusta Breiðholts hefur gefið góða raun og gæti hæglega verið fyrirmynd fyrir alla borgina þegar kemur að leiðum til að styðja við börn í skólum.

 

12. Útiskólar borgarinnar á leik- og grunnskólastigi verði efldir og þeim meðal annars gert kleift að verða leiðandi í því að bjóða upp á fjölbreytt nám úti í náttúrunni.

Sífellt fleiri skólar nýta sér aðstöðu Gufunesbæjar en þar er stöðug þróun á gæði aðstöðunnar ásamt því að nokkrir sérfræðingar í útikennslu starfa þar. Það þyrfti þó meiri áherslu á þennan lið og fleiri staði með sambærilega aðstöðu og hjá Gufunesbæ.

 

13. Stuðlað verði að því að afleysing fáist þegar mannekla verður innan leik- og grunnskóla.

Borgin þyrfti aukið fjármagn til þess að hægt sé að bjóða upp á sambærilega afleysingaþjónustu og tíðkast í leik- og grunnskólum á hinum Norðurlöndunum.

 

Íþrótta og tómstundamál

1. Laugardalur og Elliðaárdalur verði verndaðir sem útivistar- og íþróttasvæði.

Núverandi skipulag gerir ráð fyrir verndun þessara dala. Píratar í Reykjavík verða vakandi fyrir því ef til stendur að breyta því.

 

2. Aðgangur barna og unglinga að samskiptum við dýr innan borgarmarka verði efldur. Kannaðar verði leiðir til að gera börnum kleift að umgangast hesta og leggja stund á útreiðar.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn verði efldur.“

Tafir hafa þó verið á þessu áhersluatriði vegna þröngrar fjárhagsstöðu.

Verið er að móta landbúnaðarstefnu fyrir Kjalarnes undir forystu fulltrúa Pírata í umhverfis- og skipulagsráði. Þar gefast tækifæri til að efla aðgengi almennings að dýrum og landbúnaði.

 

3. Stuðlað verði að fjölbreyttari möguleikum til útivistar og leitað til borgarbúa um hugmyndir í því samhengi. Til dæmis mætti auka aðgang að skemmtilegum klifurtækjum og klifursporti, styðja við bretta-, skauta og aðrar jaðaríþróttir, bjóða víðar aðgang að ræktun matjurta og blóma, og margt fleira. Leita skal leiða til draga úr hljóðmengun á útivistarsvæðum.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Eflum jaðaríþróttir og almenna útivist.“

Brettafélagið hefur fengið nýtt og stærra húsnæði. Ýmsir kostir hvað eflingu jaðaríþrótta hafa verið skoðaðir og von er á tillögum í íþrótta- og tómstundaráði í þá veru.

Aðgangur að matjurtargörðum hefur verið aukinn.

 

4. Haldið verði áfram að tryggja aðgengi barna og unglinga að frístundaiðkun með því að framfærslutengja frístundakortið. Skoðaður verði sá möguleiki að frístundakortið verði gefið út á öll börn á leik- og grunnskólaaldri og verði hægt að nota til niðurgreiðslu á öllum frístundum, þ.m.t. tónlistarkennslu, íþróttaiðkun, listnámi og fleiru.

Aðilum að frístundakortinu hefur fjölgað undanfarin ár og kortið hefur verið hækkað sbr. meirihlutasáttmálann. Ekki er víst að samstaða milli flokka náist um að framfærslutengja það eða gefa það út á leikskólabörn en Píratar í Reykjavík munu halda áfram að tala fyrir þessum áhersluatriðum.

 

5. Að borgin myndi sér stefnu um ráðningar fagfólks í auknum mæli til starfa í íþrótta- og frístundastarfi, bæði til umsjónar og annarra starfa.

Borgin hefur ekki myndað sér heildstæða stefnu af þessu tagi en þó hefur verið unnið að þessu markmiði innan borgarkerfisins.

 

Skipulags- og samgöngumál

1. Gera þurfi almenningssamgöngur að raunbetri valkosti. Endurskoða beri þær með það fyrir augum að stórefla þær í samvinnu við íbúa borgarinnar og nærliggjandi sveitarfélög. Skapa skuli sameiginlega innviði sem þjónustuaðilar á sviði samgangna geta nýtt sér til að samræma mismunandi ferðamáta á borð við strætisvagna og deilingu bíla, reiðhjóla, hesta og annarra fararmáta. Í þessu getur falist ein samræmd leið til að borga fyrir samgöngur.

Í meirihlutasáttmálanum segir: „Unnið verði að eflingu strætó, auknum forgangi almenningssamgangna í umferðinni og áframhaldandi uppbyggingu hjólastíganets í samræmi við hjólreiðaáætlun. Komið verði á fót hjólaleigukerfi í Reykjavík.“

Á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (en Strætó er í eigu þeirra allra) hefur verið unnið svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins sem miðar meðal annars að eflingu almenningssamgangna. Meðal annars var fenginn til ráðgjafar bandarískur sérfræðingur í almenningssamgöngum, Jarrett Walker. Innan Strætó hefur verið unnið eftir þessum áherslum og leiðarkerfið rýnt til að finna tækifæri til að nýta fjármagn betur.

Í skoðun hafa verið möguleikar á samræmdu greiðslufyrirkomulagi fyrir samgöngur, til dæmis í gegnum app. Þetta er þó skammt á veg komið.

 

2. Taka skuli hraðahindranir til gagngerrar endurskoðunar, þar sem þær eru dýrar og auka rekstarkostnað og mengun, bæði vegna einkabíla og almenningssamgangna. Leita skuli annarra leiða til að draga úr umferðarhraða þar sem þess þarf.

Í desember 2014 kom út skýrsla sem unnin var fyrir Vegagerðina og Reykjavíkurborg um gönguþveranir.

Þar voru settir upp staðlar um hvað skal nota miðað við bílaumferð og umferð gangandi. Verið er að fara yfir allar hraðahindranir í borginni með hliðsjón af þessum stöðlum. Í virkri stefnu borgarinnar um að draga úr umferðarhraða er ekki verið að skipuleggja hraðahindranir heldur frekar upphækkuð svæði. Á nýjum Grensásvegi og Hofsvallagötu eru til dæmis ekki hraðahindranir heldur upphækkanir.

 

3. Gera þurfi átak með að gangbrautir uppfylli lagaskilyrði þar sem óljóst er á köflum hvort gangbraut sé lögleg gangbraut eða ekki.

Út frá ofangreindri skýrslu er jafnframt verið að endurskoða gangbrautir.

 

4. Skoðaðir verði möguleikar á að minnka og dreifa umferðarálagi á helsta annatíma.

Ekki hefur verið unnið markvisst eftir þessu. Þó hefur verið ýtt á t.d. háskólana að móta sér samgöngustefnur þar sem mætti meðal annars taka á þessu atriði.

 

5. Þétta beri byggð, svo fremi sem uppbygging umferðarmannvirkja haldi í við þróunina og þétting verði ekki á kostnað útivistarsvæða.

Unnið er eftir þessu samkvæmt aðalskipulagi og nú standa yfir framkvæmdir á mörgum þéttingarreitum. Hér má finna skýrslu um hvernig gengur að framfylgja markmiðum aðalskipulags.

 

6. Nauðsynlegt sé að ákveða framtíðarstaðsetningu flugvallarins í eins víðtækri sátt höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar og kostur er á.

Í núgildandi samkomulagi milli borgar, ríkis og Icelandair Group frá 2013 segir að „Sameiginlegir hagsmunir ríkis og borgar eru að tryggja sem besta sátt allra landsmanna um þetta mikilvæga mál og kanna því til fullnustu helstu staðsetningarkosti innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu.“ Út frá samkomulaginu var stofnaður stýrihópur sem hefur skilað af sér niðurstöðum. Þar kemur fram að Hvassahraun þætti langálitlegasti kosturinn fyrir flugvöll í stað flugvallar í Vatnsmýri. Þeim flugvelli, fyrir utan NA/SV-flugbraut, er samkvæmt samkomulaginu tryggður sess í aðalskipulagi Reykjavíkur til 2022. Lokun NA/SV-flugbrautar fór í þann farveg að héraðsdómur og síðan Hæstaréttur þurfti að skera úr í því máli. Lítil vinna hefur farið fram við að fylgja samkomulaginu eftir og fullkanna flugvallarkosti.

Ljóst er því að þrátt fyrir samkomulag er málið í töluverðum hnút sem höggva þarf á með einhverjum hætti. Píratar í Reykjavík hafa haldið nokkra málefnafundi um flugvallarmál en ennþá hefur ekki verið mótuð ítarleg stefna um hvernig tryggja megi sátt í málinu.

 

7. Efla beri miðbæjarkjarna í hverfunum – skapa bæjarstemningu. Hafa skuli samráð við íbúa í hverfunum um að skapa slíka kjarna eða bæta þá sem þegar eru til staðar.

Slíkir kjarnar eru eitt af markmiðum aðalskipulags Reykjavíkur og unnið er samkvæmt því í hverfisskipulagi.

 

8. Samgöngur verði bættar í kringum íþróttaviðburði með því t.d. að bjóða þeim sem halda viðburðina að láta með einföldum hætti strætópassa fylgja með miðum á þá viðburði.

Engin markviss vinna hefur farið fram við þetta.

 

Lýðræði í aðalskipulagi:

1. Endurskoða þurfi aðferðafræði og núverandi form aðalskipulags með það að markmiði að auka lýðræði, þátttöku íbúa og gagnsæi í ákvarðanatöku. Skoða skuli möguleika á þróun á formi aðalskipulags í átt að því að það sé unnið á gagnvirku netsvæði.

Lítil markviss vinna hefur farið fram við þetta á kjörtímabilinu enda núverandi aðalskipulag frekar nýlega samþykkt. Við næstu endurskoðun á aðalskipulagi gefast frekari tækifæri við að breyta verklaginu við það. Þar mætti m.a. horfa til þess hvernig hverfisskipulag hefur verið unnið á kjörtímabilinu.

 

Með sumarkveðju,

Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi, fyrir hönd Pírata í Reykjavík